„Takið áskorunum, látið í ykkur heyra og gerið þetta bara“

In Fréttir by Sigyn

Ungar athafnakonur létu nokkur snjókorn ekki stoppa sig og fjölmenntu í Viðskiptaráð Íslands í gærkvöldi.

Kvöldið hófst á því að Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs bauð félagskonur velkomnar, kynnti starfsemi ráðsins og fjallaði meðal annars um hvernig tækniþróun og alþjóðavæðing hafa breytt starfsumhverfi fyrirtækja og hvernig hægt sé að beita sér í viðskiptum.

Með Ástu var Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands og fyrsta konan til að gegna því hlutverki. Þær skiptust á að segja sögur og deila áhugaverðri og fjölbreyttri reynslu sinni.

Mynd: Katla Þorvaldsdóttir

Ásta starfaði lengi vel sem ráðgjafi hjá McKinsey, víða um heim, og sagði þá reynslu hafa verið algjörlega frábæra. „Þetta er eins og að vera í skóla, á launum. Þú lærir margt á skömmum tíma en álagið er líka brjálað,“ útskýrði hún og bætti við að það væri ekki heillavænlegt að starfa lengi undir svo miklu álagi. „Við konur getum oft á tíðum verið haldnar mikilli fullkomnunaráráttu og viljað gera allt en ef álagið er of mikið þá hleypurðu á vegg,“ sagði Ásta af fenginni reynslu.

Katrín Olga var sammála og benti á að hver og ein okkar hefði í raun þrjú hlutverk sem hvert og eitt skipta miklu máli: „Þú sjálf, fjölskyldan og framinn. Þetta þrennt verður að vera í jafnvægi annars verður maður ekki hamingjusamur.“ Sjálf hefur hún verið ötull talsmaður jafnréttis á sínum ferli og segir málefnið varða alla. „Jafnrétti er hagur heimilanna og ég ætla aldrei að hætta að berjast fyrir konur,“ sagði Katrín og salurinn fylltist eldmóði.

Mynd: Katla Þorvaldsdóttir

Báðar tvær höfðu ógrynni ráðlegginga fram að færa og fengu félagskonur að skyggnast inn í hvernig það er að starfa þar sem konur eru í minnihluta. „Ég hugsa oft um Lean In og passa að mín rödd heyrist á fundum, passa mig að taka pláss og taka þátt,“ sagði Ásta og vísaði til bókar Sheryl Sandberg sem UAK mælir með að allar félagskonur lesi, ef þær hafa ekki gert það nú þegar. „Maður stressast oft upp fyrir kynningar eða fundi og heldur að allir hinir séu með sitt á hreinu en við erum öll manneskjur og það eru ekkert allir að pæla í þér,“ bætti Ásta við. Hún sagði að þó það væri vissulega mikilvægt að vera vel undirbúin þá skipti einnig máli að vera afslöppuð og að stress megi ekki koma í veg fyrir að fólk nýti tækifærin sem bjóðast. „Takið áskorunum, látið í ykkur heyra og gerið þetta bara,“ ítrekaði Ásta fyrir félagskonum.

Mynd: Katla Þorvaldsdóttir

„Hafið kjarkinn til að standa með sjálfum ykkur og hugsið að ef einhver annar getur þetta þá getið þið það líka,“ sagði Katrín Olga á sömu nótum. Leiðin væri þó sjaldnast greið og allar myndu líklega upplifa vonbrigði á ferlinum. „Það sem skiptir máli er hvernig þið tæklið vonbrigðin,“ útskýrði hún og benti á að allar holur í veginum væru reynsla sem væri hægt að læra af. „Maður grenjar kannski úr sér augun fyrst en svo er bara málið að setja undir sig hausinn og nýta vonbrigðin til góðs,“ sagði Katrín.

Í umræðunni um hindranir varpaði Ásta spurningu út í sal og vildi forvitnast um upplifun félagskvenna af þessum málum. Nokkrar félagskonur sem starfa í upplýsingatæknigeiranum nefndu dæmi um að þær fengju á sig neikvæðan stimpil fyrir að ræða jafnréttismál í vinnunni og samstarfsfélagar einnar höfðu meira að segja gengið svo langt að segja hana eiga auðvelt með að fá vinnu kyns síns vegna. Katrín Olga var ekki lengi að benda á staðreynd málsins og talaði til kvenna þvert á atvinnulífið: „Það er ekki verið að ráða ykkur af því að þið eruð konur. Það er verið að ráða ykkur af því að þið eruð hæfar og ekki láta segja ykkur eitthvað annað.“

Mynd: Katla Þorvaldsdóttir

Ungar athafnakonur þakka Ástu og Katrínu Olgu, ásamt Viðskiptaráði Íslands, kærlega fyrir frábært og fræðandi kvöld. Við fylltumst innblæstri við að hlusta á svo flottar fyrirmyndir.