Starfsárið 2018-2019 einkenndist af aukinni fjölmiðlaumfjöllun um félagið, fjölbreyttum viðburðum og hárbeittum umræðum. UAK dagurinn var haldinn í annað sinn og heppnaðist sem fyrr einstaklega vel. Eins og fyrri ár hittust félagskonur á tengslakvöldum, málstofum og námskeiðum og heimsóttu áhugaverð fyrirtæki sem hafa sterkar kvenfyrirmyndir í sínum röðum og vinna að jafnrétti.
UAK í umræðunni
Við upphaf starfsárs tók stjórn UAK ákvörðun um að halda áfram vegferð sinni í átt að auknum sýnileika félagsins. Því fleiri sem vita af félaginu, því líklegra er að konur sem eiga heima í félaginu taki þátt. Enn fremur er mikilvægt að UAK sé áberandi í umræðunni en nú í vetur höfðum við aldeilis hátt og fengum verðskuldaða athygli í fjölmiðlum. Í janúar hóf UAK umræðu á samfélagsmiðlum sem úrvinnslu úr #metoo byltingunni þar sem fólk var hvatt til að deila sögum af áreitni á vinnustað undir myllumerkinu #vinnufriður. Átakið heppnaðist vel og í kjölfarið fékk félagið tækifæri til að skila inn áliti á þingsályktunartillögur Alþingis er tengjast jafnréttismálum. UAK var einnig áberandi á Alþjóðadegi kvenna þar sem við hringdum bjöllunni fyrir jafnrétti í Kauphöll Íslands þann 8. mars og vöktum athygli á mikilvægi þess að leiðrétta kynjahallann í stjórnum og æðstu stjórnunarstöðum stærstu fyrirtækja landsins, að brjóta glerþakið frá báðum hliðum fyrir fullt og allt.
UAK dagurinn
Ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu, UAK dagurinn svokallaði, var haldinn í annað sinn og heppnaðist frábærlega. Um 250 manns mættu til að hlusta á fyrirlesara og málstofur, tóku virkan þátt í umræðunni og skemmtu sér saman í kokteilboði í lok dags. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var Brotið glerþak til frambúðar og hnýtti dagskráin saman byltingar samtímans, áhrif þeirra og afleiðingar og framtíðarhugsjón fyrir atvinnulífið sem er enn svo þjakað af kynjahalla þegar kemur að æðstu stjórnunarstöðum og valdamiklum hlutverkum í þjóðfélaginu. Það má með sanni segja að UAK dagurinn sé hefð sem er komin til að vera og ætla má að vinsældir ráðstefnunnar komi til með að aukast með ári hverju ef fram fer sem horfir.
UAK og fjölbreytileikinn
Eftir sem áður vill félagið ná til breiðs hóps í samfélaginu og í ár var ákveðið að leggja áherslu á viðburði sem tengjast atvinnugreinum öðrum en tækni og viðskiptum. Meðal annars heimsóttum við Borgarleikhúsið, ræddum umfjöllun um konur í fjölmiðlum, hittum stjórnmálakonur og heyrðum af þeirra reynslu, héldum viðburð um umhverfismál í samhengi jafnréttis og hittumst á fyrirlestrakvöldi um fjölskylduréttindi. Með fjölbreyttum viðburðum fengu félagskonur innsýn inn í ólíka upplifun kvenna út frá starfi þeirra og bakgrunni, ásamt því að UAK náði mögulega til kvenna sem áður höfðu haldið að félagið væri einvörðungu fyrir konur í viðskiptum. Við viljum að öllum konum sem hafa áhuga á starfsemi félagsins líði eins og þær séu hjartanlega velkomnar og sú vinna hefur skilað okkur skráningum frá konum á ýmsum aldri, úr öllum kimum atvinnulífsins.
UAK sem vörumerki
Hluti af þeirri vinnu að auka sýnileika félagsins og vinna að ímynd þess er að styrkja vörumerkið enn frekar. Nafnið Ungar athafnakonur hefur af sumum þótt villandi og þá sér í lagi að athafnakonur séu konur í viðskiptum. Á starfsárinu hefur stjórn UAK unnið markvisst að því að nota frekar skammstöfunarheitið UAK yfir félagið og starfsemi þess. Með þeim hætti má ætla að UAK skapi sér stærri sess og haldi áfram að vera félag sem stjórnvöld og leiðtogar í samfélaginu þekkja sem málefnalegt félag fyrir konur sem ætla sér langt í atvinnulífinu.
Einu sinni UAK, alltaf UAK
Tíminn flýgur og nú er tveggja ára setu minni í stjórn UAK lokið. Það hefur verið einstakur heiður að starfa fyrir félag sem skiptir okkur allar svo miklu máli. Að láta að sér kveða og starfa með jafnrétti að leiðarljósi í hópi kvenna sem eru hver annarri hæfileikaríkari er starf sem ég myndi taka að mér aftur og aftur. Ég hlakka til að mæta á UAK viðburði næstu árin. Takk fyrir mig.
Sigyn Jónsdóttir, formaður UAK 2017-2019