Takk fyrir starfsárið

In Fréttir by snaefridurjons

Starfsárið 2019-2020 var einstakt ár hjá UAK. Viðburðir voru vel sóttir og ljóst að áhugi á félaginu hefur aukist með hverju ári sem líður. Árið einkenndist af fjölbreyttum viðburðum þar sem við fengum fjöldan allan af flottum gestum og uppskárum mikinn innblástur frá þeim. UAK fagnaði 5 ára starfsafmæli og hélt UAK daginn hátíðlegan í þriðja sinn. Eins og fyrri ár hittust félagskonur á tengslakvöldum, námskeiðum, málstofum og í heimsóknum hjá fyrirtækjum með flottar kvenfyrirmyndir innanhúss. 

5 ára starfsafmæli UAK

UAK fagnaði 5 ára afmæli sínu í húsakynnum KPMG í október síðastliðnum. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að aðeins fimm ár séu síðan fyrsti viðburðurinn var haldinn þar sem rúmlega 200 konur mættu. Stofnandi félagsins, Lilja Gylfadóttir, segist sjálf aldrei hafa órað fyrir því hversu mikill áhugi væri á félagi sem þessu. Á þessum stutta tíma hefur félagið vaxið og dafnað með hverju árinu. Félaginu hefur til að mynda tekist að auka sýnileika sinn í samfélaginu með aukinni fjölmiðlaumfjöllun, verið áberandi í umræðunni og tekið þátt í viðburðum annarra félagasamtaka og fyrirtækja með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi. Við verðum stofnanda félagsins ævinlega þakklátar fyrir að hrinda hugmynd sinni í framkvæmd og stofna þetta mikilvæga félag. UAK og árangri þess má þakka fyrrum stjórnarkonum, þeim sem hafa veitt félaginu styrk á einn eða annan hátt og síðast en ekki síst öllum þeim frábæru félagskonum sem gera félagið að því sem það er. 

UAK víkkar sjóndeildarhringinn

UAK hefur eftir fremsta megni reynt að ná til breiðs hóps og líkt og síðasta ár var ákveðið að leggja áherslu á viðburði sem tengjast ólíkum atvinnugreinum. Í ár fjölluðum við til að mynda um konur í iðngreinum með áherslu á karllægt umhverfi, heimsóttum fjölbreytt fyrirtæki, héldum málstofu um kynjakvóta og heyrðum frá konum í hönnun og listum. Með fjölbreyttum viðburðum fá félagskonur innsýn inn í upplifanir kvenna út frá ólíkum störfum og bakgrunnum. Þar að auki má ætla að félagið hafi náð til kvenna sem hafa áður upplifað að þær eigi ekki heima í félaginu. Það skiptir okkur miklu máli að fá fjölbreyttan hóp kvenna og að þær konur sem hafa áhuga á starfi félagsins upplifi eins og þær eigi heima í UAK. 

UAK dagurinn

Ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu, UAK dagurinn svokallaði, var haldinn í þriðja sinn og heppnaðist frábærlega. Rúmlega 200 manns mættu til að hlusta á fyrirlesara og málstofur, tóku virkan þátt í umræðunni og skemmtu sér konunglega í kokteilboði í lok dags. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var Næsta skref í þágu framtíðar og fjallaði um hvernig við sem samfélag getum tekið lítil og stór skref í átt að meira jafnrétti fyrir okkur öll. Dagskráin hnýtti saman samfélagslega ábyrgð við fjölbreytileika, umhverfismál og jafnrétti kynjanna. Dagurinn í heild sinni fór fram úr okkar björtustu vonum en það er gestum ráðstefnunnar, fyrirlesurum hennar og vinnu stjórnarinnar að þakka hversu vel tókst til. Við vonum að UAK dagurinn sé kominn til að vera og hlökkum til að fylgjast með hvernig ráðstefnan verður á komandi árum. 

Takk UAK

Ég hef setið í stjórn UAK í tvö ár og er setu minni nú lokið. Það er erfitt að koma því í orð hversu þakklát ég er fyrir félagið sem lætur til sín taka í samfélaginu og raunverulega hefur áhrif með því að hvetja konur til dáða. Félagið hefur veitt mér ómetanlegan innblástur og hvatningu sem ég er viss um að fleiri hafi upplifað. Það hefur verið mikill heiður að starfa fyrir UAK og vil ég þakka stjórn félagsins sérstaklega fyrir einstaka og óeigingjarna vinnu í ár. Ég hlakka til að fylgjast með félaginu á næstu árum og get ekki beðið eftir að sjá hvað það mun gera í framtíðinni. Takk UAK.