Tengslakvöld og bjórsmökkun

In Fréttir by Andrea Gunnarsdóttir

Fimmtudaginn 18. mars síðastliðinn stóð UAK fyrir tengslakvöldi og bjórsmökkun þar sem áhersla var lögð á að efla tengslanet félagskvenna.

Kathryn Gunnarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Geko, flutti erindi og sagði frá eigin upplifun á að byggja upp öflugt tengslanet í nýju landi. Ráðningastofan Geko sérhæfir sig í ráðningu starfsfólks sem er sérhæft á sviði vísinda, tækni, verkfræði og lista (e. STEAM). Fyrirtækið var stofnað í sömu viku og fjöldamarkmörkunum var komið á við upphaf faraldursins en hefur þrátt fyrir aðstæður vaxið og dafnað.

Kathryn deildi sinni reynslu af því að vera kona af erlendum uppruna á Íslandi í atvinnuleit og hvernig það varð til þess að hún stofnaði Geko. „The great thing about Iceland is that you’re always just one person away from somebody who can help you,” sagði Kathryn en hún flutti frá London til Íslands árið 2016 þar sem hún starfaði alþjóðlega við mannauðsmál og stjórnun.

Lady Brewery, kvenrekið farand kraft brugghús, var með bjórsmökkun fyrir félagskonur þar sem þær sögðu okkur frá sögu kvenna í bruggun. „Við erum að hanna bjór,” sagði Þórey Björk Hall­dórs­dótt­ir, stofnandi og framkvæmdastjóri Lady Brewery, en starfsfólk fyrirtækisins kemur úr hönnunar-, myndlistar- og matargeiranum og nálgast þau bjórgerð út frá því sjónarhorni. Þau eru að hefjast handa við að rann­saka ís­lenska náttúru í bjór­gerð og opna svo­kallað til­rauna­eld­hús. Einnig stendur til að stofna leyniklúbb en þar fá meðlimir alls kyns fríðindi og bjór í á­skrift. Áherslur brugghússins eru feminískar og er bjór settur í annað samhengi. „Við á­kváðum að horfa á þetta út frá konum, markaðs­setja frá hönnunar­tengdu sjónar­horni og leitast eftir því að vinna með skapandi fólki,” sagði Þórey.

Það var einstaklega ánægjulegt að skapa rými til að styrkja tengslanetið í raunheimum þrátt fyrir að sóttvarnaraðgerðir settu svip sinn á viðburðinn. Við hlökkum til að skála oftar í feminískan bjór!