Tengslakvöld Ungra athafnakvenna fór fram föstudaginn 20. september sl. á kvennaheimilinu Hallveigarstöðum. Markmið kvöldsins var að þétta hópinn vel saman og fá félagskonur til að kynnast betur innbyrðis. Boðið var upp á pizzur frá Dominos og fjölbreytt úrval af drykkjum frá CCEP. Góð mæting var á viðburðinn og virkilega góð stemning í loftinu.
Uppistandarinn og podcaststjarnan Salka Gullbrá, opnaði viðburðinn með einstaklega skemmtilegu uppistandi. Salka talaði meðal annars um hversu skemmtilegt það væri að vera með uppistand fyrir hóp sem samanstæði aðeins af konum. Uppistandið uppskar mikil hlátrasköll meðal viðstaddra og var frábær byrjun á skemmtilegu kvöldi.
Að loknu uppistandi tóku við umræðuborð. Stjórn UAK var búin að undirbúa 8 vel valin málefni fyrir hvert borð og svo mátti hver og ein segja sína upplifun eða skoðun. Hver hópur hafði um 15 mínútur við hvert borð og svo mátti færa sig á annað borð. Eins og við mátti búast voru umræðurnar áhugaverðar og líflegar.
Hér má sjá umræðuborðin og borðaleiðtoga kvöldsins:
Launaviðtöl – Bylgja Björk Pálsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Icelandair
Frá hugmynd í framkvæmd – Svava Björk Ólafsdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi í nýsköpun
Að sækja um starf – Gyða Kristjánsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi
Framkoma – Guðrún Sóley Gestsdóttir, dagskrágerðakona hjá RÚV
Starfsþróun – Elísabet Erlendsdóttir, vörustjóri hjá Advania
Nám erlendis – Sigríður Steinunn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Ísey skyr bar
Starfsframi og fjölskyldulíf – Auður Albertsdóttir, ráðgjafi hjá Aton JL.
Tengslanet – Kristjana Björk Barðdal, framkvæmdastjóri Reboot Hack
Í heildina heppnaðist tengslakvöld UAK virkilega vel og má segja að markmiði kvöldsins hafi verið náð. Takk kærlega fyrir komuna Salka Gullbrá, borðaleiðtogar og kæru félagskonur.