„Það býr leiðtogi innra með okkur öllum“

In Fréttir, UAK-dagurinn by Fréttaritari UAK dagurinn 2018

Halla Tómasdóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, ræddi leiðtogahlutverkið á UAK deginum. „Við höfum notað það alltof þröngt hingað til. Það býr leiðtogai innan hvers og eins okkar,“ sagði hún. „Þetta snýst ekki um stöðuna sem við erum í eða starfið sem við gegnum. Það býr leiðtogi innra með okkur öllum.“

„Leiðtogi er einhver sem fær það besta út úr öllum í kringum sig,“ sagði Halla sem sagði að allir hefðu eitthvað fram að færa og að bestu ákvarðanirnar væru teknar þegar ólíkt fólk kemur saman og leggur sitt að mörkum. „Þið eruð ungar og það tekur tíma að rækta leiðtogann. Við verðum betri og betri.“

Halla sagði að það væri eitt svar: „Ekki hvað maður er að gera heldur hvernig maður gerir hlutina sem skiptir öllu máli.“ Það skipti ekki máli hvað maður væri að gera eða hvar í fyrirtækinu maður starfar, sem leiðtogi skipti það máli hvernig maður gerði hlutina. Það væri mikilvægt að þekkja gildin sín og starfa eftir þeim.

Mikilvægt að hafa skýr gildi

Þegar Halla hóf störf hjá sælgætisdeild Mars í Bandaríkjunum lærði hún skýr gildi fyrirtækisins. Þau voru:

  • Gæði
  • Ábyrgð
  • Skilvirkni
  • Gagnkvæmur ávinningur
  • Frelsi
  • Jafnræði

Hún sagði að það væri óvanalegt að fyrirtæki í Bandaríkjunum hefði jafnræði sem eitt af gildum sínum. Hún tók dæmi um annað fyrirtæki sem henni bauðst að vinna hjá, Procter & Gamble, sem framleiðir tannkrem, „Munurinn á þessum tveimur fyrirtækjum, að mínu mati og margra annarra, var að þetta fyrirtæki var með skýra sín á fyrir hvað fyrirtækið stendur,“ sagði hún.

Gildin eru þó ekki mikils virði nema þau verði raunverulega leiðarljós í starfi, sagði hún. Það var þó ekki fyrr en hún hóf eigin rekstur í eigin fyrirtæki – í fjármálafyrirtækinu Auður Kapital – sem hún áttaði sig fyllilega á því hversu mikilvægt var að hafa skýr gildi.

Karllæg gildi ríkjandi

Þegar Halla var framkvæmdastjóri hjá Viðskiptaráði og Kristín Pétursdóttir var stjórnandi hjá Kaupþingi banka árið 2007 fundu þær fyrir því hvað fjármálageirinn væri karllægur. Þeim hugnaðist það  ekki og „í staðin fyrir að kvarta yfir því ákvaðum við að gera eitthvað í því,“ sagði hún. Það sem við tók var erfiður tími en Halla sagðist ekki sjá eftir ákvörðuninni.

Gildin voru skýr: koma átti með kvenlægari gildi inn í fjármálageirann. „Við vildum endurskilgreina hvað það þýðir að ná árangri,“ sagði hún. „Það skiptir máli að hafa skýra sýn á það hvernig maður ætlar að starfa.“

Þessi áhersla á gildi í nálgun Höllu varð til þess að hún fór að velta fyrir sér af hverju samfélagið hefði ekki skýra hugmynd um hvaða gildi ættu að ráða för. Hún, ásamt nokkrum öðrum, ákváðu í kjölfarið að halda þjóðfund þar sem það var rætt. Niðurstaðan af honum var að heiðarleiki, jafnfrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, og ábyrgð voru þau gildi sem Íslendingar vildu að myndu ráða för hér.

Tók af skarið sjálf

Halla ákvað að fara í forsetaframboð til að reyna að koma þessum gildum að. Þegar 45 dagar voru til kosninga birtust fréttir af því að um eitt prósent þeirra sem afstöðu tækju í könnun ætluðu að kjósa hana. Þá fyrst fékk hún athygli frá fjölmiðlum og var spurð hvort hún ætlaði að hætta við. Halla sagði að það hefði aldrei komið til greina.

Þennan dag ákvað hún að keyra áfram með þeim sem voru til í að vinna að sömu gildum og hún o ghætti að hlusta á þá sem sögðu að hún þyrfti að vera „forsetalegri“ en hún birtist þá. Hún sagði að gagn, gleði, gagnsæi, og girlpower hafi verið leiðarljósið í kosningabaráttunni. Það fór svo að 27,9 kjósenda greiddu Höllu atkvæði.

„Ef ég hefði hætt þegar allir spurðu mig þá hefði allt samtalið átt sér stað á milli karla um framtíð Íslands,“ sagði hún.