„Þú ert nóg. Nákvæmlega eins og þú ert núna,“ sagði Alda Karen Hjaltalín við gesti UAK dagsins þegar hún flutti erindi sitt í Norðurljósum Hörpu. „Þegar ég var gerð að sölu- og markaðsstjóra hjá Sagafilm eftir einungis 6 mánaða starf sem lærlingur hjá þeim þurfti ég að redda mér,“ útskýrði Alda en þrátt fyrir að vera 24 ára gömul á hún að baki fjögur ár sem stjórnandi og hefur setið fundi með ekki minni fyrirtækjum en Disney, Spotify og Facebook. „Ég þurfti að Googla fullt og það fyrst sem ég Googlaði var: Hvað er sölu- og markaðsstjóri?“
Erindi Öldu bar yfirskriftina Þín leið og fjallaði hún um það að allir færu sína leið í lífinu og engin ein leið væri rétt. „Það er aðeins þín leið sem skiptir máli,“ sagði Alda og benti á að fólk sem nær langt hefur allt mismunandi sögur að segja og leiðin að markmiðum okkar væri ólík milli einstaklinga.
Alda fjallaði einnig hraðbraut tilfinninganna (e. emotional highway) og benti á mikilvægi þess að láta ótta og aðrar tilfinningar ekki ná yfirhöndinni í erfiðum aðstæðum. „Hugsið þetta eins og bíla í umferð sem eru að fara framhjá og bíðið með viðbrögðin þar til tilfinningarnar hafa farið í framheilann þar sem við getum unnið úr boðunum,“ sagði Alda og notaði sem dæmi þegar hún ákvað að halda ráðstefnu í Eldborg fyrr í vetur, með stuttum fyrirvara. „Ég bókaði bara Eldborg og kýldi á þetta,“ segir Alda um ákvörðunina en uppselt varð á LIFE Masterclass viðburð hennar í Hörpu. „Það er aldrei réttur tími til að gera neitt. Rétti tíminn er núna,“ sagði hún og hvatti gesti UAK dagsins til að láta drauma sína rætast. „Þú ert tilbúin núna,“ ítrekaði Alda og bætti við þessari lykilsetningu sem við þyrftum öll að endurtaka reglulega: „Þú ert nóg.“