,,Það sem einkennir sigurvegara er trúin á að þau geti sigrað.”

In Fréttir by Helena Rós Sturludóttir

Opnunarviðburður UAK 2018 var haldinn fimmtudagskvöldið þann 18. janúar sl. í Vonarsal í húsnæði SÁÁ. Viðburðurinn var opinn öllum sem höfðu áhuga á og mættu rúmlega 100 manns til að hlusta á fyrirlesturinn sem fjallaði um markmiðasetningu, tímastjórnun og jákvæða sálfræði.

Gestir kvöldsins voru þær Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, viðskipta- og markaðsfræðingur og Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og dr. í líf- og læknavísindum, eigendur MUNUM dagbókarinnar.

Þær Þóra og Erla fóru yfir mikilvægi þess að setja sér markmið og hvernig maður hámarkar líkurnar á árangri. Þóra talaði um að alls ekki allir settu sér markmið en flestir könnuðust við að setja sér áramótaheit og að 90% áramótaheita klikka fyrir 16. janúar, ekki vegna þess að þau eru flókin heldur vegna þess að það klikkar eitthvað á leiðinni. ,,Margir vita hvert skal stefna og hvað þarf að gera til að komast þangað en fáir setja sér markmið og fylgja þeim eftir” sagði Þóra.  Hún nefndi einnig að fólk sem setur sér markmið sé tíu sinnum líklegri að ná árangri.

Erla fór síðan yfir fyrsta skrefið en það er að hugsa hvað við viljum í raun og veru gera. Hvaða drauma við eigum og hvað okkur langar til að framkvæma. Þegar það er á hreinu þá þurfum við að hugsa um hvernig við komumst þangað sem við ætlum okkur.  ,,Við eigum það til að bíða eftir hinu fullkomna augnabliki til að gera hlutina en við þurfum sjálf að skapa okkur þetta augnablik og stíga út fyrir þægindarammann” sagði Erla. Hún talaði um að við þyrftum að vera dugleg að minna okkur á hvað er jákvætt í kringum okkur og hætta að einblína á neikvæða hluti.

Þóra tók við boltanum og talaði um að það væri mikilvægt að setja sér raunhæf markmið en á sama tíma þyrftu þau að vera krefjandi. Til að fylgjast með árangrinum þyrftu markmiðin að vera sértæk og mælanleg. ,,Fólk sem nær miklum árangri hefur lent í því að mistakast margoft. Það eina sem skiptir máli er að gefast ekki upp og skoða hvað það er sem er að klikka. Lykilatriðið er að gefast ekki upp” sagði Þóra.

Þóra fór síðan aðeins yfir það hversu dýrmætur tíminn okkar er og muninn á hugtökunum að verja tíma í eitthvað og eyða tíma í eitthvað. Hún sagði að það væri mikill munur á því að verja tíma í eitthvað og eyða tíma í eitthvað. ,,Ef þú ákveður til dæmis að eyða nokkrum klukkutímum fyrir framan sjónvarpið á kvöldin þá ertu að verja tímanum í það en ef það er bara gamall vani þá kannski ertu að eyða tímanum þínum og gætir ákveðið að verja tímanum frekar í eitthvað annað.”


Erla og Þóra nefndu The Pomodoro Technique sem gott tæki til að nota til einbeita sér að verkefnum  (https://www.focusboosterapp.com/the-pomodoro-technique). 

Undir lokin fór Erla yfir það að þrátt fyrir að markmiðasetning og eftirfylgni sé mikilvæg þá mætti alls ekki detta í fullkomnunaráráttu, samanburð fólk á samfélagsmiðlum og niðurrif. ,,Okkur hættir til að einblína á veikleika okkar og gleyma styrkleikunum. Það sem einkennir sigurvegara er trúin á að þau geti sigrað” sagði Erla.  

Við hvetjum félagskonur til að taka þátt í #munumáskorun2018 sem snýst um að taka út slæma venju eða skapa sér nýja góðu venju í 30 daga.

Við þökkum Þóru og Erlu kærlega fyrir frábæran fyrirlestur ásamt öllu því flotta fólki sem mætti á viðburðinn.