Ungar athafnakonur héldu vinnustofu 8. febrúar sl. að fyrirmynd HeForShe verkfærakistunnar og var þetta í fyrsta skipti í heiminum sem slík vinnustofa var haldin fyrir ungt fólk. Ásdís Ólafsdóttir, leiðandi höfundur Barbershop Toolbox, kynnti fyrirkomulag og markmið vinnustofunnar sem var að fá þátttakendur til að líta inn á við, ígrunda eigin hugmyndir og skilning á ójafnrétti. Ásamt því að búa til umhverfi sem byggir á trausti til þess að þátttakendur geti talað saman um hvernig konur og karlar geta unnið saman til að stuðla að auknu jafnrétti í okkar samfélagi.

LJÓSMYNDARI: HELENA SÆVARSDÓTTIR
„Barbershop er ætlað að koma á samræðum milli fólks um hugmyndir okkar um kyn, jafnrétti og mismunun. Það var magnað að sjá þennan ólíka hóp fólks treysta hvert öðru fyrir sínum pælingum og upplifunum. Samræðurnar voru bæði djúpar og áhugaverðar og augljóst að hópurinn hefði getað haldið áfram að ræða saman svo tímunum skipti. Algjör heiður að fá að vinna með UAK og þeim sem mættu!” segir Ásdís um kvöldið.

LJÓSMYNDARI: HELENA SÆVARSDÓTTIR
Atli Fannar Bjarkason flutti hugvekju um tvöfalt siðferði sem virðist ríkjandi í garð kvenna. Hann fjallaði sérstaklega um atvikið þegar Justin Timberlake reif flipa af búning Janet Jackson í hálfleikstriði Superbowl árið 2004, og er gjarnan fjallað um atvikið sem „umdeildasta sjónvarpsviðburð allra tíma”, og hvaða hroðalegu afleiðingar það hafði fyrir Janet en ekki Justin.
Því næst var þátttakendum skipt í hópa eftir kyni þar sem lagt var fyrir þau fyrirfram ákveðnar spurningar. Ræddu þeir sín á milli eigin skoðanir, vangaveltum og persónulega reynslu út frá spurningunum. Svo var hópunum blandað, konur og karlar saman, og aðrar fyrirfram ákveðnar spurningar lagðar fyrir hópana.
Aðspurðar áttu konur í erfiðleikum með að velja sögu um kynbundna mismunun eða kynferðislega áreitni því þær sjálfar og allar þeirra vinkonur höfðu sögu að segja. Karlarnir lýstu því hvernig þeir hefðu sumir hverjir ekki tekið eftir ójafnréttinu fyrr en út á vinnumarkaðinn væri komið. Þá var rætt um ástæðu þess af hverju fólk stígur ekki fram þegar það verður vitni að ójafnrétti og sögðu karlmennirnir til dæmis ekki vilja gera hvorn annan vandræðalegan. Einnig var rætt hvort hagsmunir þeirra einstaklinga sem beita mismunun vegi þyngra en hagsmunir þeirra sem verða fyrir mismunun.

LJÓSMYNDARI: HELENA SÆVARSDÓTTIR
Aðspurðir um hver sé helsta áskorun karlmanna við að styðja konur og beita sér markvisst í baráttunni gegn kynjamisrétti sögðu karlarnir að þessar aðstæður kvenna séu svo fjarri þeim, þeir lendi í slíku misrétti nokkrum sinnum á ævinni en konur kljást við þetta vandamál frá 12-13 ára aldri sem er lýjandi til lengri tíma litið. Þó hafi margt breyst í kjölfar #metoo byltingarinnar og þeir séu mun meðvitaðari en áður.

LJÓSMYNDARI: HELENA SÆVARSDÓTTIR
Þá voru megin niðurstöður um hvernig er hægt að bregðast við kynjamisrétti á þá leið að mikilvægt er að allir átti sig á að jafnrétti er gott fyrir alla. Einnig voru allir sammála um mikilvægi þess að taka þessa umræðu, vera meðvituð um misrétti og séu óhrædd/ir við að benda á það. Til dæmis með því að virkja umræðuna í vinahópnum eða á vinnustaðnum. Einnig þótti þátttakendum mikilvægt að ungir drengir fái meira rými til þess að tala um eigin tilfinningar og hvernig þeim líður. Ásamt því að tala við bæði stelpur og stráka á grunnskólaaldri til að reyna að koma í veg fyrir að formföstu kynjahlutverkin myndist og festist of snemma því það er mjög erfitt að brjóta þau.
Lykilatriði í þessari hópavinnu er að hafa jafnt kynjahlutfall, sem var raunin. Er þetta fyrsti viðburður Ungra athafnakvenna þar sem konur jafnt við karla ræða saman um jafnréttismál og þátttakendur fá tækifæri til að deila eigin upplifun.
Við þökkum Ásdísi kærlega fyrir virkilega fagmannleg vinnubrögð við framkvæmd þessa viðburðar og þeim ungu konum og körlum sem sáu sér fært að mæta.

LJÓSMYNDARI: HELENA SÆVARSDÓTTIR