„Þetta er ekki flókið, þetta er bara spurning um að taka ákvörðun og fylgja henni eftir”

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

Karlotta Halldórsdóttir, verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá hélt erindi á UAK deginum um  stöðu kvenna á íslenskum vinnumarkaði og vegferð Sjóvá í jafnréttismálum en Sjóvá var aðalstyrktaraðili UAK dagsins 2020. Karlotta byrjaði á að tala um árangur Íslands í jafnréttismálum en sýndi svo hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum í fyrirtækjum með yfir 50 starfsmenn. Þar mátti t.d. sjá að hlutfall kvenna sem framkvæmdastjórar er í dag 13% og hefur lítið breyst undanfarin 10 ár. Hlutfall kvenna í stjórnum er töluvert hærra enda má rekja það til laga um kynjakvóta.

„Ég held það sé óhætt að segja að þetta sé ekki mjög glæsilegt staða, þvi miður, og ljóst að við eigum ennþá langt í land, þí að við séum best í heimi,” sagði Karlotta. 

Karlotta fór þá yfir vegferð Sjóvá í jafnréttismálum. „Við erum nefninlega svo heppin að vera með stjórnendur sem finnst þetta ekki vera ásættanleg staða og eru markvisst að vinna í þessum málum.”

Hún byrjaði á því að fara aftur til ársins 2011 en þá var ein kona í stjórn félagsins af fimm og ein kona í framkvæmdastjórn af sex. 

Árið 2011 kom inn nýr forstjóri,” útskýrði Karlotta. „Hann kom inn með aukna áherslu á jafnréttismál og hefur hann lagt áherslu á að jafna kynjahlutföll í stjórnendastöðum og launajafnrétti.”

Sjóvá nýtir sér allskonar mælikvarða til þess að fylgjast með og ná meiri árangri í jafnréttismálum. Nefndi hún sem dæmi jafnlaunavottun og GemmaQ en Sjóvá varð á síðasta ári fyrsta félagið í kauphöllinni til að fá 10 í einkunn á þeim kvarða en hann mælir hlutföll kvenna í stjórnendastöðum skráðra fyrirtækja. Einnig hefur verið byggt ofan á þessa vinnu og hún samtvinnuð inn í kúltúr innan fyrirtækisins og allar ákvarðanatökur, hvort sem það  var samsetning á teymum, ráðningar, stöðuhækkanir og annað slíkt. „Í dag er þetta að mestu komið bara inn í DNA fyrirtækisins og orðin sjálfsagður hlutur,” sagði Karlotta. Nefndi hún að nauðsynlegt var að gera breytingar sem jöfnuðu hlutföll í efstu stjórnunarstöðum og  á meðal millistjórnenda. „Það hefur orðið til þess að skapa betri menningu og mikilvæg hvatning fyrir ungar konur að hafa kvenfyrirmyndir í öllum stigum félagsins,” sagði hún. 

Hindranir í veginum 

Karlotta sagði þó að þetta væri ekki alltaf auðvelt og að upp komi alltaf áskorarnir sem nauðsynlegt er að kljást við. Nefndi hún sem dæmi staðalímyndir á ýmis störf og að enn eru uppi viðhorf um ákveðin karla- og kvennastörf og getur reynst erfitt að jafna kynjahlutföll í slíkum deildum.

„Við erum með nokkur dæmi um þetta. Til dæmis í framlínunni hjá okkur, eða einstaklingsráðgjöfunum. Það voru lengi vel bara konur í þeirri deild, svo vorum við með söludeild þar sem voru bara karlar. Síðan voru þessar deildir sameinaðar og þá jöfnuðust kynjahlutföllin. En við erum að lenda í vandræðum núna með að fá konur inn. Einhverra hluta vegna þá virkar salan fráhrindandi á konur og það hefur reynst áskorun að fá þær inn. Þarna hefur vandamálið snúist við og farið úr kvennadeild og yfir í karllægari deild,” sagði Karlotta og bætti við að sama væri að gerast hjá fyrirtækjaráðgjöfinni, þar voru jöfn kynjahlutföll árið 2018 en er komið niður í 30% núna og einhverra hluta vegna þá sækja mjög fáar konur þar um sem viðskiptastjórar.

„Þannig það eru sífellt að koma upp nýjar áskoranir og sem betur fer er menningin hjá okkur þannig að það eru allir stjórnendur meðvitaðir um þetta og í stað þess að sætta sig við slíkt þá er unnið markvisst að því að finna lausnir.”

Hún fór síðan yfir stöðuna í Sjóvá í dag og  lagði áherslu á að ekkert í þessu væri tilviljun heldur væri búið að vinna mjög markvisst að því að ná jafnrétti í öllum stigum fyrirtækisins. Í dag er staðan þannig að 60% af stjórninni okkar í dag eru konur, 50% af framkvæmdastjórum eru konur og 50% af millistjórnendum eru konur. 

En hverju hefur þessi stefna skilað Sjóvá? Nefndi Karlotta að rannsóknir sýni að 

jafnrétti á vinnustaðnum skili sér í bættum rekstri fyrirtækja og að það væri margt sem rennir stoðum undir það.  Nefndi hún sem dæmi að ánægja viðskiptavina Sjóvá sé á uppleið, starfsánægja er mikil og að uppgjör Sjóvá fyrir síðasta ár hafi verið eitt besta uppgjör í sögu félagsins. 

„Þannig það er alveg ljóst að árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Þó að það sé vissulega margir þættir sem spila þarna inn í þá erum við sannfærð um að áhersla á jafnrétti spili þar stórt hlutverk,” sagði Karlotta. 

Að lokum lagði Karlotta áherslu á að það væri stöðug vinna að koma á og viðhalda jafnrétti. „Við erum vissulega með fremstu fyrirtækjum á Íslandi í jafnrétti og þess vegna vildum við koma hingað í dag og segja okkar sögu. Og veita þannig öðrum fyrirtæki innblástur til að gera slíkt hið sama,” sagði Karlotta. „Það er nokkuð ljóst og ég held ég hafi sýnt fram á að þetta er ekki flókið, þetta er bara spurning um að taka ákvörðun og fylgja henni eftir. Það er ekki spurning um að það sé skortur á hæfum konum, þetta er bara spurning um viðhorf.”