„Þiggjum þá hjálp sem við getum fengið!“

In Fréttir by asbjorge

Ungar athafnakonur fjölmenntu í fyrirtækjaheimsókn til WOW air fimmtudagskvöldið 7. nóvember síðastliðinn. Hjá WOW starfa um 1.100 manns, þeirra á meðal þrjár kröftugar konur sem tóku á móti okkur, kynntu okkur fyrir starfsemi félagsins og sögðu okkur svo sínar sögur. Þetta voru þær Ragnhildur Geirsdóttir, aðstoðarforstjóri, Svanhvít Friðriksdóttir (Svana), forstjóri samskiptasviðs og Jónína Guðmundsdóttir (Nína), forstjóri mannauðssviðs.

Ragnhildur byrjaði á að bjóða okkur velkomnar og sýndi okkur kynningarmyndband um WOW. Myndbandið sýndi glögglega að fyrirtækið leggur mikið upp úr góðum starfsanda þar sem gleðin er við völd. Ragnhildur lítur svo á að ferðamaðurinn hafi m.a. bjargað efnahagslífinu eftir hrunið en þar spilar WOW stórt hlutverk. „Með því að bjóða upp á via-Ísland möguleikann erum við að keppa á alþjóðlegum markaði því þá getum við boðið upp á svo marga áfangastaði. Hugmyndafræðin er að á endanum sértu ekki að borga neitt fyrir flugið, bara viðbótarþjónustuna.”

Á skrifstofum WOW air er kynjahlutfallið nokkuð jafnt en þegar kemur að flugliðum og flugmönnum er sagan önnur. 84% flugliða hjá WOW eru konur og 95% flugmanna eru karlar. Fyrirtækið vinnur markvisst að því að jafna kynjahlutföllin á þessum sviðum en hvað er það sem veldur? Er það mögulega áhugasvið? Nína bendir á að sonur hennar sé óður í að leika sér með flugvélar og að hún hafi heyrt þá sögu víðar – flugmenn tali um að þeir hafi verið óðir í flugvélar í æsku. Er eitthvað sem hindrar stelpur í að leika sér með flugvélar? Samræðurnar beinast að fyrirmyndum. „Í dag er stór hluti kvenkyns flugmanna dætur flugmanna. Mikilvægi fyrirmynda er svo gríðarlegt.” segir Nína og hittir að öllum líkindum naglann á höfuðið.

Eftir áhugaverðar umræður kynntu konurnar sig betur og sögðu okkur sínar sögur.

Ferill Ragnildar er vægast sagt glæsilegur. Eftir að hafa útskrifast með tvær mastersgráður í Bandaríkjunum vann hún sig meðal annars upp hjá keppinautunum, Icelandair. Árið 2003 varð hún fyrsti kvenkyns framkvæmdastjóri félagsins og árið 2005 varð hún forstjóri. „Ári síðar sagði ég því starfi þó upp. Ég valdi að fylgja minni „gut feeling” þegar ég gat ekki skrifað upp á ýmislegt sem var rætt. Það var mjög erfitt að labba frá þessu einstaka tækifæri og þessu frábæra starfi en maður verður bara að hlusta á sjálfan sig.” segir Ragnhildur og minnir okkur á mikilvægi þess að fylgja alltaf okkar eigin sannfæringu. Þegar einar dyr lokast, þá opnast aðrar en skömmu síðar var Ragnhildur orðin CEO hjá Promens hf.

Þar og á ýmsum öðrum sviðum hefur hún unnið í mjög karllægu umhverfi og hún viðurkennir að henni finnist í raun ekki mikið hafa breyst þegar kemur að kynjahlutföllum í stjórnunarstörfum þau tæpu tuttugu ár sem hún hefur verið á vinnumarkaðnum. „Ég heyri oft gagnrýnisraddir um að ég muni ekki hafa tíma fyrir börnin mín útaf álagi en maður verður bara að finna jafnvægi í sínu lífi. Maður vill ekki eingöngu vinna. Maður vill sinna fjölskyldunni, áhugamálunum og sjálfum sér,” segir Ragnhildur og bætir við að við verðum að þiggja þá hjálp sem við getum fengið. Það sé ómögulegt að vera með heimilið spikk og span, allt 100% í vinnunni og á sama tíma eiga ógrynni af fjölskyldustundum án þess að fá utanaðkomandi aðstoð.

Svana tók undir þetta „Já það er svo ríkt í okkur konunum að vera með fullkomnunaráráttu. Það er miklu betra að finna jafnvægi og útdeila verkefnum!”

Svana hefur starfað hjá WOW frá því það voru 9 starfsmenn hjá félaginu en fyrsta árið sitt þar gerði hún ekkert annað en að vinna. „Ég vann alla daga tilmiðnættis. Þetta blessaða barn var bara rosa mikið að pissa á sig þetta fyrsta ár. Við þurftum að koma því á koppinn. Ætli það sé ekki bara orðið unglingur núna?” segir Svana og minnir okkur skemmtilega á að þó að eitthvað sé erfitt í upphafi þá geti það svo sannarlega borgað sig til langs tíma.

Nína hefur einnig verið þáttakandi í miklum vexti hjá WOW air en á þeim tveimur árum sem hún hefur starfað hjá fyrirtækinu fjölgaði starfsmönnum úr 200 í 1200. Það má því með sanni segja að mannauðsstjórinn hafi haft nóg að gera við ráðningar.

Þegar við höfðum fengið að kynnast þessum flottu konum spruttu upp ákafar en nauðsynlegar umræður um klæðaburð flugliða. Ungar athafnakonur virtust vera á einu máli: Flugliðar vinna öryggisstarf og því er erfitt að sinna í þröngu pilsi og háum hælum. Starfsmenn flugfélaga virðast oft hika við að taka afstöðu til þessa máls en Ragnhildur er ekki ein þeirra. „Ég get bara sagt það hreint út að ég vil bjóða upp á buxur!” svaraði hún af krafti þegar spurt var afhverju það væri ekki val hvers og eins flugliða hvaða samsetningu af buxum, pilsi, hælum og flatbotna skóm hann kysi. Ungar athafnakonur hvetja WOW air eindregið til að hlusta á aðstoðarforstjórann!

Við þökkum þessum stórglæsilegu konum kærlega fyrir móttökurnar, sögurnar og hvatningarorðin og endum á heilræðum frá þeim til Ungra athafnakvenna.

Heilræði til Ungra athafnakvenna:

  • Stattu með sjálfri þér
  • Leggðu hart að þér
  • Komdu fram sem einstaklingur sem ætlar að ná árangri
  • Ekki leggja ofur áherslu á launin í upphafi nýs starfs
    • Sannaðu þig!
  • Gættu að því að hafa gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs
    • Fáðu utanaðkomandi aðstoð
    • Náðu gæðastundum með fjölskyldunni/vinum
  • Vertu hæfilega kærulaus, bæði í vinnu og einkalífi