Fimmtudaginn 6. apríl tók Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- nýsköpunar- og iðnaðarráðherra á móti okkur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Viðburðurinn var með frekar óformlegu sniði og okkur þótti frábært að fá að ræða við ráðherra í afslöppuðum aðstæðum og á jafningjagrundvelli. Þórdís Kolbrún byrjaði á því að segja okkur aðeins frá sjálfri sér ásamt því að svara spurningum sem við í stjórn UAK höfðum komið til hennar og í framhaldi gátu félagskonur spurt hana spjörunum úr.
Þórdís hafði í raun engan tíma til að ákveða hvernig ráðherra hún vildi vera þar sem skipanin hafði komið henni mjög á óvart og verið með stuttum fyrirvara. Það var því ekkert annað í boði en að vera bara hún sjálf og finnst henni sér hafa verið vel tekið. Hún vonast til þess að það hætti að vera jafn fréttnæmt í framtíðinni þegar ungt fólk sest í ráðherrastól og þyki eðlilegt að það sé fjölbreyttur hópur í pólitík og ríkisstjórn. Það gengur ekki að allir þurfi að hafa upplifað alla hluti til að mega að tjá sig um þá. Hún vill frekar að viðtöl við hana snúist um þann málaflokk sem hún stendur fyrir en það að hún sé ung kona og jafnframt nýbökuð móðir í ráðherrastól. Henni þykir ferðamála- nýsköpunar- og iðnaðarráðuneytið einstaklega spennandi vettvangur þar sem hann tekst á við málefni sem horfa til framtíðar Íslands s.s. mótun ferðamannaiðnaðarins sem verður sífellt mikilvægari fyrir íslenskt atvinnulíf.
Þórdís Kolbrún segir að tengslanet sé afar mikilvægt og sérstaklega mikilvægt fyrir ungar konur að vera í uppbyggjandi félagsskap líkt og UAK. Konur eiga að styðja hvora aðra frekar en að óttast samkeppni. Umræðunni í pólitík og jafnframt um jafnréttismál þarf að breyta þannig að fólk sem vill komast að sama markmiði verður að hætta að rökræða um hvaða leið sé best að fara og byrja að taka skref í rétta átt.
Það var greinilegt að Þórdís Kolbrún vill sjá áframhaldandi betrumbætur á stöðu kvenna í samfélaginu og atvinnulífinu. Hún segist trúa því að við þurfum að taka skref sem við kannski vildum óska þess að við hefðum ekki þurft að taka s.s. lögleiðing á jafnlaunavottun til að ná fyrr þeim árangri sem við viljum ná. Þórdís eignaðist barn sl. haust en hefur þó ekki enn gert upp við sig hvort hún taki fæðingarorlof á næstu mánuðum, hún þurfi fyrst að meta hvaða áhrif það myndi hafa á stjórnmálaferil sinn. Hún áttar sig þó á að hún sé fyrirmynd fyrir komandi ráðherra og hafa margir hvatt hana til að nýta þennan rétt sinn einmitt svo það verði sjálfsagður hlutur síðar meir fyrir ráðherra að fara í orlof.
Við hlökkum til að fylgjast með Þórdísi Kolbrúnu á næstu misserum og þökkum við henni og ráðuneytinu kærlega fyrir góðar móttökur og skemmtilegan fund.