„Það skiptir mestu máli að hafa ástríðu. Þú feikar ekki ástríðu,“ sagði María Rut Kristinsdóttir í erindi sínu. María byrjaði á að fara yfir ferill sinn og sínar upplifanir. Hún talaði um þegar hún fékk sitt fyrsta starf eftir útskrift úr Háskóla Íslands hjá GoMobile. Þar reyndi hún að vera „ein af strákunum“ og hafði mikinn metnað fyrir GoMobile appinu og nefndi að hún hafi virkilega haldið að hún væri að breyta heiminum með því.
Eftir tvö ár hjá GoMobile tók Ingleif, eiginkona Maríu hana á það sem þær kalla „heiðarlegan stöðufund“ þar sem hún sagði Maríu að hún þyrfti að hætta í vinnunni því þetta væri ekki rétti staðurinn fyrir hana, og að hún ætti að vera að gera eitthvað annað.
María sagði upp og vissi ekkert hvað hún átti að gera en fékk síðan starf sem sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, en þar leiddi hún samráðshóp ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. „Það var gott fyrir mig að fara inn í kerfið og sjá hvernig hlutirnir virka í alvöru,“ sagði María en hún varð fyrir kynferðisofbeldi sem barn.
Nú starfar María á Alþingi sem aðstoðarkona Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar.
Í erindi sínu lagði María áherslu á mikilvægi þess að finna tilganginn og ástríðuna. Talaði hún um hvað það sé auðvelt að gera bara það sem er lagt fyrir framan þig. „En þegar þú finnur að þú ert ekki á réttum stað, þá þarf að stoppa og taka beygjuna.“
María talaði um hversu miklu máli heiðarleiki og einlægni skiptir. „Maður á alltaf að reyna að vera einlægur og heiðarlegur. Þá er ekki hætt að question-a það sem maður er að gera, ef maður stendur á sínu og gerir það sem mann langar til að gera. Þá ertu að minnsta kosti að gera það af heiðarleika.“
Að lokum talaði María um að konur ættu að passa að peppa hvor aðra til að „láta vaða“.
„Mig langar til þess að við peppum hvor aðra miklu betur. Látum vaða, verðum óhræddar við að vera við sjálfar, og ekki láta aðra segja okkur hvert við eigum að fara.“