„Þú þarft ekki endilega að tikka í öll boxin“

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

„Það lenda allir í áföllum en það er hægt að gera svo margt gott úr öllum aðstæðum,“ sagði Ragnhildur Ágústsdóttir í erindi sínu á UAK deginum. Ragnhildur hefur fengið sinn skerf af áföllum, en hún varð framkvæmdastjóri fjarskiptafyrirtækisins Sko aðeins 25 ára gömul og forstjóri Tals 27 ára.

Margir minnast þess eflaust þegar Ragnhildur steig fram árið 2017 og sagði frá því þegar tveir karlmenn úr stjórn Tals lokuðu hana inni í fundarherbergi, meinuðu henni útgöngu, höfðu lokað fyrir símanúmerið hennar og reyndu að fá hana til þess að skrifa undir uppsagnarsamning. Þegar þetta átti sér stað var Ragnhildur komin fjóra mánuði á leið og óttaðist um öryggi sitt og ófædds barns síns. Þegar hún gekk út úr fundarherberginu sneri hún aldrei aftur til fyrirtækisins, flúði land eftir fæðingarorlofið og talaði ekki um það sem gerst hafði í níu ár.

„Það var ekki fyrr en Metoo-byltingin hófst að þessi atburður fór aftur að krauma. Ég fór að tala um þetta við vinnufélaga og vini og eftir því sem ég talaði meira um þetta fékk ég fleiri áskoranir um segja frá þessu,“ rifjar Ragnhildur upp.

Hún rauf þögnina í Kjarnanum og sagði í kjölfarið frá reynslu sinni í viðtali í Kastljósi. „Eftir að ég var búin að tala um þetta fann ég fyrir líkamlegum létti. Þetta var byrði sem ég hafði borið í níu ár.“

Umrætt áfall hafði mikinn áhrif á starfsframa Ragnhildar, en skömmu síðar varð hún fyrir áfalli af persónulegri toga þegar synir hennar greindust með einhverfu. Til þess að gera langa sögu stutta þá áttuðu Ragnhildur og maðurinn hennar sig á því hversu lítið var um almenna fræðslu um einhverfu, sem hafði mikil áhrif á það hvernig þau brugðust við með mikilli afneitun þegar synir þeirra greindust. Þau stofnuðu Styrktarfélag barna með einhverfu, Bláan apríl, og þegar þau sáu synina yfirstíga hverja hindrunina á fætur annarri ákváðu þau að láta drauminn rætast og stofnuðu fyrirtækið Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal.

„Þetta er okkar að breyta“

„Samhliða þessum verkefnum hef ég líka verið að vinna í tæknigeiranum og kynnst því að það eru ansi margar hindranir á leiðinni,“ segir Ragnhildur og nefnir meðal annars rannsóknir sem sýna að konur taki miklu meiri ábyrgð á ólaunaðri vinnu innan heimilisins og ómeðvitaða hlutdrægni, sem hún segir alla seka um, sem birtist meðal annars í því að konur séu ekki metnar að verðleikum í ráðningarferlinu og fái færri tækifæri.

„Þetta er okkar að breyta. Við verðum að gera eitthvað í þessu,“ sagði Ragnhildur og gaf ráðstefnugestum góð ráð til þess að komast áfram í atvinnulífinu og ræddi í því samhengi umsóknir um störf, starfsviðtöl, laun, starfsþróun og tækifæri.

„Einhverra hluta vegna hefur það þróast í þá átt að við sækjum ekki um störf nema við tikkum í öll boxin. Strákar hafa meiri tilhneigingu til að sækja um störf þar sem þeir tikka bara í 70% af boxunum. Þú þarft ekki endilega að tikka í öll boxin. Það má læra ýmislegt í starfinu,“ útskýrði Ragnhildur.

Þegar kæmi að viðtalinu sagði hún mikilvægt að konur hættu að tala sig niður og að þær þyrftu að sýna dirfsku og biðja um hærri laun. „Áttum okkur á því að þetta eru samningaviðræður. Ef málið er komið á þann stað að það er komið að launaviðræðum þá er mjög líklegt að fyrirtækið hafi áhrif á að ráða þig til starfa útaf einhverju sem þeir telja þig hafa fram að færa.“

Síðast en ekki síst sagði Ragnhildur að þegar kæmi að starfsþróun yrðu konur að vera duglegri að segja hvað það er sem þær vilja. „Við verðum að láta vita ef við viljum meiri ábyrgð, fleiri verkefni,“ sagði Ragnhildur og ákvað setja fordæmi og nota tækifærið til þess að láta vita hvað hún vill. „Eitt af því sem mig langar til er að komast inn í stjórnir af því ég tel að ég hafi gríðarlega mikið fram að færa.“