Tillögur til lagabreytinga

In Uncategorized by Andrea Gunnarsdóttir

Lagabreytingarnefnd UAK hefur lokið heildarendurskoðun á lögum félagsins. Hér má sjá lögin sem verða lögð til samþykktar og skýringar á þeim breytingum sem nefndin leggur til á aðalfundi félagsins þann 27. maí 2021

I. Almennt

1. gr. Nafn og heimili

Félagið það, er lög þessi varða, heitir Ungar athafnakonur. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að efla ungar konur, auka vitund um stöðu ungra kvenna í atvinnulífinu og stuðla að bættu samfélagi þar sem öll kyn standa jafnfætis.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að skapa vettvang fyrir ungar konur sem hvetur til eflingar, fræðslu og myndun tengslanets. Viðburðir á vegum félagsins endurspegla tilgang félagsins.

3. gr. Félagsaðild

Aðild að félaginu geta átt allar þær konur sem náð hafa 18. ára aldri og greitt hafa félagsgjöld

Skýring
Í þessum kafla er að finna almennar upplýsingar um meðal annars varnarþing, tilgang félagsins og hvaða konur geta átt aðild að félaginu. Litlar breytingar voru voru gerðar á umræddum kafla. Í fyrsta lagi fela breytingarnar í sér að 2. grein og 3. grein er fjalla um tilgang félagsins voru sameinaðar og gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar. 

Í öðru lagi var gerð breyting á þeim konum sem aðild geta átt að félaginu. Í 3. grein (áður 4. grein) kemur fram að aðild að félaginu geta átt allar þær konur sem náð hafa 18. ára aldri og greitt hafa félagsgjöld. Fyrir breytinguna var ekki aldurstakmark né skilyrði um að hafa greitt félagsgjöld.

II. Stjórn félagsins

4. gr. Hlutverk stjórnar

a) Stjórn félagsins er skipuð sjö stjórnarkonum og tveimur varamönnum.
b) Varamenn skulu koma inn í stað stjórnarkvenna láti þær af störfum fyrir lok stjórnartíðar eða fari í tímabundið í leyfi.
c) Stjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda. Hún skal koma saman til fundar eftir því sem þörf krefur og formaður ákveður. 
d) Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórn með sér verkum og velur varaformann, ritara og gjaldkera. Stjórnin skipar nefndir til starfa fyrir félagið.

5. gr. Verkaskipting innan stjórnar

a) Formaður stjórnar ber ábyrgð á starfi félagsins.
b) Varaformaður tekur ábyrgð formanns á stjórnarfundi ef formaður forfallast eða er í leyfi.
c) Ritari skal rita og halda utan um fundargerðir stjórnar og gera þær aðgengilegar félagskonum sé þess óskað.
d) Gjaldkeri fer með prókúru félagsins nema stjórn ákveði annað.

6. gr. Stjórnarfundir

a) Formaður stjórnar stýrir stjórnarfundum og dagskrá þeirra. 
b) Stjórnarfundi skal halda að minnsta kosti fjórum sinnum á starfsári og skulu þeir að jafnaði boðaðir með viku fyrirvara. Skylt er að boða stjórnarfund ef tvær stjórnarkonur óska þess. 
c) Stjórnarfundur er ályktunarbær ef meiri hluti stjórnarkvenna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Í upphafi stjórnarfundar skal bera fundargerð síðasta fundar upp til samþykktar. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns í fjarveru formanns) úrslitum.

Skýring
Afmarkaður kafli hefur verið gerður þar sem finna má ítarlegar reglur um stjórn félagsins og stjórnarfundi. Breytingarnar fólu í sér að gera skýrari ákvæði um stjórn félagsins og hlutverk stjórnarinnar.  Breytingarnar fela í sér að orðalag hefur verið gert ítarlegra og skýrt til að forðast óvissu í tengslum við hlutverk stjórnar og verkaskiptingu innan stjórnar. 

Þá eru einnig gerð ítarlegri skil á því hvernig stjórnarfundir skulu haldnir, hve oft þeir skulu haldnir á starfsári, hver stýrir stjórnarfundum og hvenær stjórnarfundur er ályktunarbær. Stjórnarfundur er ályktunarbær ef meiri hluti stjórnarkvenna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Í upphafi stjórnarfundar skal bera fundargerð síðasta fundar upp til samþykktar. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns í fjarveru formanns) úrslitum.

Veigamestu breytingarnar eru þó að stjórn félagsins skal skipuð sjö stjórnarkonum og tveimur varamönnum, sem áður var aðeins skipuð sjö stjórnarkonum en engum varamönnum. Þá má finna í b. lið 4. gr. laganna hvert hlutverk varamanna er. Varamenn skulu koma inn í stað stjórnarkvenna láti þær af störfum fyrir lok stjórnartíðar eða fari í tímabundið í leyfi. Ítarlegri ákvæði um varamenn má einnig finna í öðrum köflum laganna. 

III. Aðalfundur

7. gr. Aðalfundur

a) Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. júní ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Heimilt er að boða til aðalfundar með tölvupósti. Í fundarboði skal óska eftir framboðum til stjórnar.
b) Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað. Rétt til setu og atkvæðagreiðslu á aðalfundi hafa þær félagskonur sem hafa verið skráðar í félagið og greitt félagsgjöld a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi og félagsfundi nema annars sé getið í lögum þessum. Með skriflegu umboði getur félagskona veitt umboðsmanni heimild til að sækja aðalfund og fara með atkvæðisrétt hennar.
c) Stjórn félagsins er heimilt að ákveða að aðalfundir, félagsfundir og/eða viðburðir skuli haldnir rafrænt eða að félagskonum verði boðin rafræn þátttaka á slíkum fundum. Í því tilfelli skal stjórn félagsins ákveða fyrirkomulag og þann fjarfundabúnað sem nota skal.
d)Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

  1. Kosning fundarstjóra og ritara
  2. Skýrsla stjórnar um starfsemi og rekstur á liðnu starfsári
  3. Ársreikningur kynntur fyrir liðið starfsár kynntur og borinn upp til samþykktar
  4. Aðrar skýrslur starfsnefnda kynntar
  5. Lagabreytingar
  6. Kosning stjórnar
  7. Kosning formanns stjórnar
  8. Ákvörðun félagsgjalda
  9. Önnur mál

Skýring
Með skýrleika að markmiði hefur verið gerður afmarkaður kafli þar sem finna má ítarlegar reglur um hvernig staðið skal að aðalfundi félagsins. Í eldri lögum er að finna álíka ákvæði, en lagabreytinganefnd telur þá grein ekki nógu nákvæma og ítarlega til að greinin gæti staðið óbreytt. Helstu breytingar eru þær að orðalag hefur verið gert ítarlegt og skýrt til að forðast óvissu í tengslum við boðun og framkvæmd aðalfundar. Einnig hefur verið gerð skýr heimild fyrir stjórn félagsins að ákveða að aðalfundur skuli haldinn rafrænt og/eða að rafræn þátttaka á slíkum fundum verði leyfð.

IV. Kosningar

8. gr. Kjörnefnd

Stjórn félagsins skal tilnefna kjörnefnd og skal hún samanstanda af tveimur eða þremur félagskonum. Kjörnefnd hefur það hlutverk að annast undirbúning og framkvæmd stjórnarkosningar og gæta að kosningarétti fundarkvenna. Skal kjörnefnd koma úr röðum félagskvenna, en meðlimir hennar mega ekki sitja í stjórn félagsins né sjálfir vera í framboði til stjórnar.

9. gr. Fyrirkomulag kosninga

a) Framboð til stjórnar skulu hafa borist eigi síðar en fyrir miðnætti þremur dögum fyrir aðalfund.
b) Kosningar til stjórnar er heimilt að viðhafa með skriflegum eða rafrænum hætti. Sé kosning með skriflegum hætti skal hún framkvæmd á aðalfundi. Sé kosning með rafrænum hætti skal henni lokið kl. 23:00 daginn áður en aðalfundur hefst.
c) Kjörgengar til stjórnar UAK eru allar þær félagskonur, 18 ára og eldri, sem skráðar hafa verið í félagið og greitt félagsgjöld a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal tryggja kjörgengi frambjóðenda til stjórnar. 
d) Ef laus sæti í stjórn eru jafn mörg eða fleiri en frambjóðendur þarf hver frambjóðandi að hljóta meirihluta greiddra atkvæða til að nái kjöri.
e) Frambjóðendur, hvort sem er í stjórn eða formannstjórnar, þurfa einfaldan meirihluta greiddra atkvæða. 

10. gr. Kjör stjórnar

Stjórnarkonur eru kjörnar til tveggja ára í senn. Fjórar konur skulu kjörnar annað hvert ár og þrjár árið á móti, nema tilefni gefist til annars. Formaður stjórnar skal kosinn til eins árs í senn. Stjórnarkona getur að hámarki setið samfellt í stjórn félagsins í tvö kjörtímabil í senn. Varamenn eru þær félagskonur sem buðu sig fram og voru næstar á lista inn í stjórn. Fyrsti varamaður skal vera sá frambjóðandi sem næst komst því að ná sæti í stjórn og annar varamaður sá frambjóðandi sem kom þar á eftir. Varamenn skulu vera gegna hlutverki sínu í eitt starfsár. 

11. gr. Kjör formanns

Á aðalfundi skulu félagskonur kjósa sérstaklega formann félagsins. Í framboðum til stjórnar skal því sérstaklega kveða á um ef frambjóðandi býður sig einnig fram í formann félagsins. Ef núverandi stjórnarkona hefur áhuga á að bjóða sig fram til formanns skal hún einnig skila inn framboði þess efnis fyrir aðalfund, innan sama tímafrests og aðrir frambjóðendur. Formaður stjórnar þarf að hafa hlotið kosningu í stjórn félagsins til að verða kjörgeng í kjör formanns. Berist ekkert framboð til formanns fyrir aðalfund félagsins, skal nýkjörin stjórn kjósa sér formann á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Skýring
Í þessum kafla er að finna kosningafyrirkomulag félagsins. Breytingar á þessum kafla fela í sér í fyrsta lagi að setja skuli á fót kjörnefnd. Hún mun hafa yfirumsjón með kosningum félagsins og gæta að kjörgengi félagskvenna á aðalfundi. Fyrirkomulagið í núverandi lögum er að stjórn tilnefnir eina stjórnarkonu til að vera ábyrg fyrir kosningunum. Lagabreytingarnefnd taldi að þessi breyting myndi auka gagnsæi og hlutleysi í kosningum. Einnig er þetta gert til að dreifa álagi og halda betur utan um kosningar félagsins. Í öðru lagi felast breytingarnar í því að stjórn félagsins skuli hafa tvo varamenn. Varamenn eru kjörnir þannig að þær félagskonur sem buðu sig fram í stjórn félagsins en hlutu ekki kjör, heldur voru næstar inn í stjórn, bjóðist að vera varamenn í stjórn. Neiti þær sæti sem varamenn er farið niður listann í þeirri röð sem atkvæði raðast. Varamenn sitja í embætti í 1 ár, ólíkt almennum stjórnarkonum sem sitja 2 ár. Í þriðja lagi hefur verið bætt við ákvæði sem heimilar nýkjörinni stjórn að kjósa sér formann, berist ekkert framboð til formanns fyrir aðalfund.

V. Önnur ákvæði

12. gr. Lagabreyting

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. ⅔ atkvæða þarf til að samþykkja lagabreytingar.

Stjórn félagsins hefur heimild til skipa lagabreytinganefnd. Laganefnd hefur það hlutverk að endurskoða lög félagsins og bera lagabreytingatillögur undir stjórn til yfirferðar áður en tillögurnar eru bornar fram á aðalfundi. Auk þess hafa félagskonur rétt til að leggja fram tillögur að lagabreytingum og skal þeim skilað í síðasta lagi á miðnætti tveimur dögum fyrir aðalfund. 

13. gr. Hagnaður og rekstrarafgangur

Hagnaði og/eða rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í starfsemi næsta árs. 

14. gr. Slit félagsins

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með samþykki ¾ fundarmanna, enda hafi áformum um félagsslit verið getið sérstaklega í fundarboði.  Verði félagið lagt niður skal eignum þess varið til góðgerðarfélags til hagsbóta fyrir konur sem tekin er ákvörðun um á aðalfundi.

Skýring
Í þessum kafla er að finna ákvæði um atriði er varða lagabreytingar, rekstrarafgang og slit félagsins. Heimild stjórnar til að skipa lagabreytinganefnd er sett í lög félagsins og er krafa um aukinn meirihluta atkvæða í lagabreytingakosningum sett á fót með það í huga að félagskonur geti sammælst, að mestu leyti, um lög félagsins.

Ákvæði um ráðstöfun hagnaðar og/eða rekstrarafgangs stendur óbreytt frá fyrri útgáfu laganna. Ákvæði um slit félagsins hefur verið gert skýrara og ítarlegra en áður var. Hingað til hefur aðeins verið gerð krafa um að einfaldan meirihluta atkvæða þurfi til að slíta félaginu. Lagabreytinganefnd leggur til að samþykki ¾ hluta fundarmanna á aðalfundi þurfi til að slíta félaginu, að því skilyrði uppfylltu að slíkum áformum hafi verið getið í fundarboði. Þetta er gert með það að markmiði að félaginu geti ekki verið slitið fyrirvaralaust í óþökk stórs hluta félagskvenna. Að lokum hefur verið sett í lög félagsins að, hafi félaginu verið slitið, skuli verja öllum eignum þess til góðgerðarfélags sem starfar til hagsbóta fyrir konur.