
Þann 5. mars halda Ungar athafnakonur (UAK) í fimmta sinn ráðstefnu tileinkaða ungum konum í íslensku atvinnulífi. Ráðstefnan veltir upp hvernig forystu framtíðin þarf á að halda í atvinnulífinu, hvaða eiginleika leiðtogar framtíðarinnar þurfa að tileinka sér og hvort séu til eiginleikar sem eiga alltaf við, burt séð frá stað og stund?
UAK er annt um framtíðina og vinnur að því að valdefla ungar konur, skapa framtíð jafnra tækifæra og stuðla að hugarfarsbreytingu í samfélaginu. Við fáum til okkar framúrskarandi gesti sem öll eiga það sameiginlegt að vera með puttann á púlsinum og nýta krafta sína í þágu framþróunar á hinum ýmsu sviðum.
Ráðstefnan mun kanna viðhorfsbreytingar sem hafa átt sér stað varðandi hlutverk leiðtoga og mannauðs, varpa ljósi á eiginleika og færni sem tryggja forystu til framtíðar, og veita ráðstefnugestum tæki og tól til að vera leiðtogar í eigin lífi og starfi.
Verð:
2.390 kr. fyrir félagskonur
6.390 kr. fyrir ráðstefnu og aðild að félaginu
7.390 kr. fyrir aðra
Dagskrá
10:00
Ungar athafnakonur
Stjórn UAK býður gesti velkomna.
10:10
Opnunarávarp
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, flytur opnunarávarp.
10:25
Gildin þín, fjárfesting til framtíðar
Í erindi sínu mun Gunnhildur fjalla um hversu mikilvægt það er að setja sér gildi. Þau eru áttavitinn og leiðarljósið í allri ákvörðunartöku og móta framtíðina. Hún mun segja frá sinni sögu hvernig HR Monitor varð til. Kynna mikilvægustu þætti í starfsumhverfinu til að ná fram því besta í hverjum og einum og að allir fái að blómstra. Ræða mikilvægi gagnsæis, mælinga og eftirfylgni og hvernig hægt er að stýra til árangurs. Að lokum mun hún koma inn á hvar frelsið er að finna.
Gunnhildur er stofnandi mannauðshugbúnaðarins HR Monitor. Hún brennur fyrir vellíðan starfsmanna á vinnustað og þar liggur ástríða hennar. Hún er með BSc gráðu í viðskiptum, MBA gráðu og hefur lagt stund á heimspeki og stjórnmálafræði. Gunnhildur hefur lengst af starfað við mannauðsstjórnun, kennslu og ráðgjöf og les allar rannsóknir sem hún kemst yfir sem sýna fram á óumdeilanleg tengsl milli ánægðra starfsmanna og fjárhagslegs ávinnings fyrirtækja. Hún er í dag stjórnarformaður Íslensku ánægjuvogarinnar, framkvæmdastjóri Ceo Huxun og Stjórnvísi sem er stærsta stjórnunarfélag á Íslandi.
Gunnhildur Arnardóttir
Framkvæmdastjóri CEO Huxun og Stjórnvísi

10:55
Ástríða í óvissu
Edda mun fjalla um reynslu, upplifun og þekkingu af því að leiða breytingar, hvernig það er að hafa framtíðarsýn og þurfa að fá fólk í lið með sér og hafa trú á sjálfri sér í óvissu. Hún mun einnig fjalla um helstu áskoranir og hvar tækifærin og lexíurnar liggja.
Dr. Edda Blumenstein er framkvæmdastjóri Framþróunar verslunar og viðskiptavina hjá BYKO. Hlutverk sviðsins er að innleiða stefnu BYKO um bestu heildarupplifun viðskiptavinar í framkvæmdum og fegrun heimilisins. Edda situr í stjórn rannsóknarseturs verslunarinnar og í stjórn Ormsson, og er stundakennari við Háskólann á Bifröst. Edda er með B.Sc. í alþjóðamarkaðsfræði, MA í Fashion, Enterprise and Society og með PhD frá Leeds University Business School þar sem hún rannsakaði Omni-channel retailing transformation og dýnamíska hæfni verslunarfyrirtækja.
Edda Blumenstein
Framkvæmdastjóri framþróunar verslunar og viðskiptavina hjá Byko

11:25
Vinnustofa: Hvað þarf til að nýta og skapa sér tækifæri á vinnumarkaði framtíðarinnar?
Herdís Pála mun fara yfir helstu breytingar sem eru að eiga sér stað á vinnumarkaði og hvernig vinnumarkaður framtíðarinnar mun líta út. Hver er nauðsynleg færni til framtíðar? Hvernig komum við okkur á framfæri, í starfsleit eða með því að skapa okkar eigin tækifæri? Hún mun koma inn á mikilvægi þess að vera eilífðarstúdent, að ákveða eigin lífstíl, að þekkja sín eigin gildi og styrkleika, og að sjálfsþekking sé sá grunnur sem við byggjum á.
Herdís Pála hefur starfað við stjórnun og mannauðsmál frá árinu 2000, lengst af í framkvæmdastjórnum þeirra fyrirtækja sem hún hefur starfað hjá. Hún hefur setið í stjórnum fyrirtækja og félaga, og í mörg ár sinnt kennslu, coaching og ráðgjöf samhliða föstum störfum. Herdís Pála hefur lokið MBA-námi og námi í Executive Coaching. Hún hefur mjög lengi fylgst með öllu er tengist framtíð vinnu, vinnustaða, vinnuafls og vinnumarkaðar. Í september 2021 kom út bókin Völundarhús tækifæranna, sem hún skrifaði með dr. Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur. Bókin fjallar m.a. um spennandi tækifæri á vinnumarkaði framtíðarinnar.
Herdís Pála Pálsdóttir
Stjórnunarráðgjafi og stjórnendaþjálfi

12:15
Hádegismatur
13:00
Eigi hafa asklok fyrir himinn
Margrét var fyrst kvenna til að gegna embætti þjóðminjavarðar Íslands og mun varpa ljósi á mikilvægi þess að horfa fram á veginn með reynsluna í farteskinu. Margrét hefur á 35 ára ferli sínum hjá borg og ríki lært mikilvægi þess að standa á traustum grunni og hafa skýra sýn um markvissa framþróun í góðri samvinnu við samferðafólk. Mun hún deila með ráðstefnugestum sinni reynslu og vegferð, með áherslu á að um leið og hafa þarf augun á baksýnisspeglinum er mikilvægt að sjá leiðirnar að settu marki.
Margrét tók við embætti þjóðminjavarðar um aldamótin 2000 þegar hugað var að framtíðarhlutverki Þjóðminjasafnsins. Hún býr að fjölbreyttri reynslu og starfaði til að mynda sem skrifstofustjóri á skrifstofu menningararfs í forsætisráðuneytinu árið 2013.
Margrét Hallgrímsdóttir
Þjóðminjavörður

13:30
Normið - Vinnustofa: Hvíldu þig á toppinn
Það hefur verið þekkt mýta að maður þurfi að hlaupa eins og hamstur í hjóli til þess að fá viðurkenningu á vinnumarkaði. Þessi hugsunarháttu hefur skilað sér í meiri kulnun og streitu. Við viljum meina að hvíldin komi okkur á toppinn og ætlum að veita ráðstefnugestum alls kyns tæki og tól til þess að finna jafnvægið. Þessi hugsun mun veita okkur þrautseigju og kraft til að skila okkur á áfangastað!
Eva er með þrennskonar alþjóðleg þjálfararéttindi frá Dale Carnegie & Associates og hefur þjálfað fjölda fólks síðastliðin 7 ár, bæði hópa og einstaklinga á öllum aldri, allt frá grunnskólabörnum að stjórnendum fyrirtækja. Eva útskrifaðist sem markþjálfi 2014, er REIKI heilari, bandvefslosunar kennari og með NLP Master Practitioner réttindi.
Sylvía er með BA í sálfræði, þrennskonar alþjóðleg þjálfararéttindi Dale Carnegie & Associates og 9 ára reynslu af þjálfun á ungu fólki, fullorðnum og stjórnendum fyrirtækja. Hún er með heilsu- & markþjálfa réttindi frá New York, Orku heilari, bandvefslosunar kennari og diplómu í NLP (Neuro Linguistic Programming) og master practitioner réttindi frá Ráðgjafaskóla Íslands.
Eva Mattadóttir
Athafnakona

Sylvía Briem Friðjónsdóttir
Athafnakona

14:10
Pallborðsumræður: Að skapa tækifæri framtíðarinnar
Ásta og Halla eru báðar leiðtogar sem vinna að bættum heimi, þó í ólíkum geirum og með misjafnar áherslur. Munu þessar pallborðsumræður opna á umræðuna um hvernig hægt er að finna tækifæri í áskorunum, t.d. með tilliti til nýsköpunar, sjálfbærni, og stafrænnar umbreytingar. Hvernig tæki og tól þurfa stjórnendur samtímans og framtíðarinnar til að ná árangri fyrir sig og fyrirtækið sitt? Munu þær deila með ráðstefnugestum reynslu sinni af því að vera framsæknir leiðtogar og hverjar þeirra vonir og væntingar séu, innan þeirra sviðs og í stærra samhengi.
Ásta Kristín er framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans en hún hefur sinnt því starfi frá ársbyrjun 2016. Hún er menntaður viðskiptafræðingur með viðbótarnám í verkefnastjórnun en á síðustu misserum hefur Ásta bætt enn frekar við sig námi og reynslu þegar kemur að sjálfbærni og hringrásarhagkerfinu. Ásta hefur verið formaður úthlutunarstjórnar Uppbyggingasjóðs Austurlands sl fjögur ár og stýrði fyrstu úthlutun úr LÓU, nýsköpunarsjóði fyrir landsbyggðina sem stofnaður var á síðasta ári.
Halla Helgadóttir er framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, með víðtæka reynslu sem hönnuður og stjórnandi. Halla er grafískur hönnuður að mennt og heiðursfélagi í FÍT. Halla var ein af stofnendum auglýsingastofunnar Fíton og starfaði við hönnun og kynningarmál um árabil. í Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur hún stofnað til, átt frumkvæði að og tekið þátt í fjölmörgum stefnumótandi og nýskapandi verkefnum á sviði hönnunar Íslandi og erlendis og um leið öðlast þekkingu og reynslu af því að starfa þvert á starfgreinar hönnunar og arkitektúrs, með fyrirtækjum og stjórnvöldum og á sviði skapandi greina.
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir
Framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans

Halla Helgadóttir
Framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs

14:50
Kaffihlé
15:20
Flæði: Samskipti og meðvitund í sköpunarferlinu
Í erindi sínu mun Saga mun tala um ferðalag sitt í að vera skapandi og hvað það gerist þegar við vanrækjum það. Einnig fjallar hún um sterka sjálfsmynd, sjálfstyrkingu og sitt eigið ferðalag. Á undanförnum árum hefur mikill fjöldi fólks komið til Sögu í "portrait" myndatöku. Hún mun deila með okkur reynslu sinni af því að hitta allt þetta fólk sem upplifir sjálfan sig og umheiminn með ólíkum hætti, hvort sem það eru rithöfundar, fjölskyldur, listafólk, börn, ráðherrar eða stjórnendur. Einnig mun Saga deila því með okkur hverju hún tekur eftir hjá konum í stjórnendastöðum og leynitrixið hvernig er hægt að líta vel út á mynd.
Saga Sig er listakona, ljósmyndari og leikstjóri. Hún byrjaði að mynda
aðeins átta ára gömul þegar hún bjó á Þingvöllum. Hún útskrifaðist sem
ljósmyndari úr LCF í London þar sem hún bjó og starfaði í sjö ár við
tísku og auglýsingaljósmyndun ásamt því að vinna með tónlistarfólki.
Saga hefur unnið þvert á listgreinar, haldið myndlistasýningar, gefið
út bækur, kennt ljósmyndun og myndað fyrir fyrirtæki á borð við Apple,
Nike og Topshop. Síðan hún flutti til Íslands hefur hún einnig leikstýrt auglýsingum fyrir fyrirtæki eins og Ölgerðina og Orku Náttúrunnar, tekið fjöldan allan af portraitum af listafólki,
stjórnmálafólki og stjórnendum fyrirtækja og haldið sýningar með abstrakt málverkum sínum.
Saga Sig
Ljósmyndari, listakona og leikstjóri

15:40
Að fylgja hjartanu – og læra að þakka fyrir erfiðu dagana
Í erindinu leggur Birna út frá fjölbreyttri reynslu sinni og ræðir mikilvægi þess að vera trú sjálfri sér og treysta, bæði sér og öðrum, til að takast á við síbreytilegt umhverfi.
Birna er stjórnmálafræðingur að mennt, með meistaragráðu í alþjóðlegum öryggismálum frá Georgetown-háskóla og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Birna hefur starfað sem framkvæmdastýra landsnefndar UN Women (þá UNIFEM), yfirmaður verkefnaskrifstofu UN Women í Serbíu og Svartfjallalandi, framkvæmdastýra Evrópustofu, verkefnastjóri atvinnulífstengsla hjá HR og framkvæmdastjóri Viðreisnar. Hún hefur unnið sem ráðgjafi fyrir alþjóðastofnanir og utanríkisráðuneytið og kennt öryggismál og starfsemi alþjóðastofnana á háskólastigi. Birna hefur starfað sem framkvæmdastjóri landsnefndar UNICEF á Íslandi frá árinu 2020.
Birna Þórarinsdóttir
Framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

16:00
Happy hour í boði Símans
