Image

Þann 22. apríl heldur UAK árlega ráðstefnu sína tileinkaða ungum konum í íslensku atvinnulífi. Ráðstefnan er haldin í sjötta sinn en hún fer fram í Norðurljósasal í Hörpu og ber yfirskriftina Jafnrétti á okkar lífsleið.

Meginmarkmið ráðstefnunnar er að vekja athygli á alvarlegri afturför í jafnréttismálum samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Loftslagsbreytingar, COVID-19 og stríð í Úkraínu eiga það sameiginlegt ásamt öðrum þáttum að hafa verið áhrifavaldar þess efnis. Kynjajafnrétti verður ekki náð að fullu árið 2030 líkt og áform höfðu verið um heldur í fyrsta lagi eftir þrjú hundruð ár.

UAK er annt um að ekki sé sofnað enn frekar á verðinum í jafnréttismálum og mun ráðstefnan varpa ljósi á hvað þarf að eiga sér stað til þess að kynjajafnrétti náist fyrr en núverandi spár segja til um. Leitast verður svara við spurningum líkt og hvar Ísland stendur á heimsvísu og hvernig við getum haft áhrif á einstaklingsgrundvelli og sem samfélag.

Á ráðstefnuna fáum við til okkar framúrskarandi gesti sem öll eiga það sameiginlegt að brenna fyrir málstaðinn, og eru því vel í stakk búin til að ítreka mikilvægi kynjajafnréttis, veita vettvang til umræðna og fylla þátttakendur eldmóði.

Við hlökkum til að sjá ykkur í Norðurljósasal Hörpu þann 22. apríl.

Verð:
4.500 kr. fyrir félagskonur
8.000 kr. fyrir ráðstefnu og aðild að félaginu
10.000 kr. fyrir aðra

Dagskrá


10:00

Ungar athafnakonur

Kristín Sverrisdóttir, ráðstefnustýra UAK, býður gesti velkomna fyrir hönd stjórnar UAK.

10:15
Opnunarávarp

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flytur opnunarávarp.

Katrín Jakobsdóttir
Forsætisráðherra Íslands

10:35
Bakslagið í jafnréttismálum: Eitt skref áfram og 300 ár til baka

Jafnrétti á okkar lífsleið er orðinn fjarlægur draumur og við virðumst föst í hjólförunum. Í erindi sínu mun Stella fjalla um stöðu jafnréttismála á heimsvísu, bakslaginu og þeirri alvarlegu afturför sem við stöndum frammi fyrir í jafnréttismálum og hvað það er sem veldur henni. Hvernig munum við ná heimsmarkmiðum Sþ árið 2030, ef það mun taka okkur 300 ár að ná fullu jafnrétti eins og nýjustu tölur og vísbendingar segja til um í dag? Hvar stendur Ísland í alþjóðlegum samanburði og fylgir því kannski enn meiri ábyrgð að vera frá Íslandi þar sem hvað mest jafnrétti ríkir á heimsvísu? Erindið á einnig að vera hvatning um að öll getum við gert eitthvað sem einstaklingar og samfélag og mikilvægi þess að fullu jafnrétti verður ekki náð fyrr en við öll erum jöfn.


Stella Samúelsdóttir hefur starfað sem framkvæmdastýra UN Women á Íslandi síðastliðin 5 ár. Starfsferill hennar hefur verið á sviði þróunarmála með sérstaka áherslu á jafnréttismál. Hún starfaði í fimm ár í tvíhliða þróunarsamvinnu á vegum íslenskra stjórnvalda í Malaví, einnig hjá fastanefnd Íslands til Sameinuðu þjóðanna í New York og sem ráðgjafi í þróunarmálum.


Stella Samúelsdóttir
Framkvæmdastýra UN Women á Íslandi

11:00
Fyrst, síðust, skiptir það máli?

Í erindinu sínu mun Ragna fara yfir bakgrunn sinn og ljónin á veginum. Hún mun velta upp spurningum líkt og: Á fyrsta konan að vera fullkomin eða má hún gera mistök? Hafa fyrirmyndir einhverja raunverulega þýðingu? Er eitthvað vit í að fara úr opinbera geiranum í atvinnulífið og aftur til baka? Er heilbrigt að efast mikið? Er veikleiki að skipta um skoðun?

Ragna Árnadóttir er skrifstofustjóri Alþingis og fyrrverandi dómsmálaráðherra. Hún var aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar um sjö ára skeið og sat m.a. í stjórn CCP hf. og Sagafilm ehf. auk þess að sitja í stjórn Samorku og stjórn Viðskiptaráðs Íslands. Hún gegndi auk þess öðrum trúnaðarstörfum, bæði á vegum atvinnulífsins og hins opinbera.

Ragna útskrifaðist sem lögfræðingur frá lagadeild HÍ árið 1991 og hóf þá störf á nefndadeild Alþingis. Þaðan lá leiðin til skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og síðar Kaupmannahöfn. Eftir heimkomuna til Íslands hóf Ragna störf í Stjórnarráði Íslands, lengst af í dómsmálaráðuneytinu. Ragna hefur starfað í Rauða krossinum um árabil. Á síðasta ári var hún kjörin í stjórn alþjóða Rauða krossins (IFRC).


Ragna Árnadóttir
Skrifstofustjóri Alþingis

11:35
Trúnó með Halla

Þorsteinn mun spjalla við Halla um hvernig samfélagið á tíma hans uppeldis ýtti undir ójafnrétti og útskúfaði konur og aðra sem voru öðruvísi. Halli mun koma inn á hvernig hann sér þörf á því að aflæra sjónarmið og hegðun sem voru þá voru kennd og passa að börnin hans fái betra veganesti. Þörfinni um að karlmenn varði sig meira um jafnréttismál verður velt upp, sem og hvernig jákvæð karlmennska styður við jafnrétti og hvernig skaðleg karlmennska hefur neikvæð áhrif á öll.

Haraldur Þorleifsson er 45 ára karlmaður alinn upp í samfélagi sem útilokaði konur og alla sem voru öðruvísi. Hann er að reyna að aflæra það sem honum var kennt og passa að börnin hans fái betra veganesti.

Haraldur Þorleifsson
Karlmaður í bata


12:00
Hádegishlé

Hádegismatur innifalinn í ráðstefnumiða.

13:00
Af hverju skiptir gagnahlutdrægni máli?

Í erindi sínu mun Sæunn kynna gagnahlutdrægni og hvaða þýðingu hún hefur fyrir daglegt líf okkar allra. Af hverju skiptir máli að gögn byggi á öllum kynjum og fjölbreyttri upplifun. Hvaða þýðingu hefur það ef við þjálfum gervigreind á hlutdrægum gögnum?

Sæunn Gísladóttir er sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og þýðandi bókarinnar Ósýnilegar konur eftir Caroline Criado Perez. Hún brennur fyrir jafnréttismálum og starfar einnig sem starfsmaður Jafnréttisráðs Háskólans á Akureyri. Sæunn er hagfræðingur frá University of St Andrews og með MA gráðu í þróunarfræði frá University of Sussex. Hún hefur áður starfað sem blaðamaður og í verkefnastjórnun í þróunarsamvinnu.

Sæunn Gísladóttir
Sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og þýðandi bókarinnar Ósýnilegar konur eftir Caroline Criado Perez

13:25
Treystu tilfinningunni

Í erindi sínu ætlar Guðrún að fara yfir feril sinn allt frá fyrsta ári í tölvunarfræði í háskólanum, yfir í fyrstu skref á vinnumarkað og allt til dagsins í dag. Hún talar um sína reynslu af því vera kona á framabraut í ákaflega karllægum geira, hvernig hún hefur getað nýtt sér sína hæfileika og sérstöðu til góðs ásamt því að deila því hvernig hún leysti úr ýmsum erfiðum aðstæðum og hvað hún myndi gera öðruvísi í dag. Trú á sjálfa sig og traust á eigið innsæi hefur verið hennar lykilverkfæri á öllum sínum ferli, og með árunum hefur orðið auðveldara og auðveldara að beita þessum vopnum af mikilli sannfæringu.

Guðrún Ólafsdóttir er tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands og með PMD stjórnendagráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Guðrún hefur alla tíð starfað í tæknigeiranum og er þrátt fyrir ungan aldur reynslumikill stjórnandi á þeim vettvangi. Guðrún vann hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Rue de Net í yfir áratug og fór frá því að vera sumarstarfsmaður yfir í eiganda og staðgengil framkvæmdastjóra í tíð sinni þar. Í dag starfar Guðrún sem sviðsstjóri upplýsingatækniráðgjafar (Consulting) hjá Deloitte ásamt því að vera meðeigandi.

Guðrún Ólafsdóttir
Sviðsstjóri upplýsingatækniráðgjafar og meðeigandi hjá Deloitte

13:50
Það er kominn tími til að klára þetta mál: Lokum jafnlaunabilum með gagnadrifnum ákvörðunum

 Í erindi sínu fer Margrét yfir hennar eigin jafnlaunavegferð, frá eigin reynslu af launa óréttlæti yfir í stofnun fyrirtækis sem notast við hugbúnað til launagreininga og lokun launabila. Hún mun fara yfir stofnun lítils fyrirtækis yfir á alþjóðamarkað og greina frá áhrifum tækniþróunar á jafnlauna- og jafnréttisbaráttu.

Margrét Vilborg Bjarnadóttir er dósent við viðskiptaháskóla University of Maryland og stofnandi PayAnalytics. Margrét útskrifaðist úr véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og með doktorspróf í aðgerðagreiningu frá Massachusetts Institute of Technology (MIT). Hún hefur starfað í akademíunni síðan hún útskrifaðist, hefur birt fjölda ritrýnda greina í háklassa tímaritum. Hún hefur hlotið fjölda kennsluverðlauna, síðast var hún útnefnd besti MBA prófessorinn af Poets & Quants. Rannsóknir hennar hafa t.d. verið styrktar af National Science Foundation og US Department of Defense. Margrét stofnaði PayAnalytics til að útrýma launamun. Á vegferðinni frá hugmynd að alþjóðlegu fyrirtæki hlaut hún og PayAnalytics fjölda viðurkenninga, m.a. besti nýliðinn á Nordic Startups á Íslandi. Margrét hlaut alþjóðleg uppfinningaverðlaun kvenna frá GWIIN og nú síðast var PayAnalytics valinn besti áhrifasprotinn á Nordic FinTech í Kaupmannahöfn. Fjallað hefur verið um jafnlaunarannsóknir Margrétar og PayAnalytics í fjölda fjölmiðla, t.d. Forbes, HBR og BBC.

Margrét Bjarnadóttir
Dósent í aðgerðagreiningu og tölfræði, og Stofnandi PayAnalytics


14:30

Kaffihlé

14:50
Pallborðsumræður: Við höfum ekki 300 ár

Guðrún, Margrét og Sæunn eiga það sameiginlegt að vera framsæknir leiðtogar á sínu sviði og brenna fyrir jafnréttismálum. Í pallborðsumræðunum verður velt upp hvernig hægt er að nýta tækniþróun og gagnavinnslu til framþróunar í jafnréttismálum. Hvaða áhrif hefur stafræn umbreyting/fjórða iðnbyltingin á réttindi og stöðu kvenna? Pallborðsumræður munu veita ráðstefnugestum innsýn í hvers konar aðgerðir samfélög þurfa að leggja áherslu á til að vinna bug á þeirri alvarlegu afturför sem hefur átt sér stað og horfa björt fram á veginn.

Sæunn Gísladóttir, Guðrún Ólafsdóttir og Margrét Bjarnadóttir taka þátt í pallborðsumræðum.

Andrea Gunnarsdóttir, fyrrum formaður UAK og Tech Lead hjá Controlant, stýrir pallborði.





15:30
I can buy myself flowers

Helga Hlín ætlar að segja okkur frá innsæinu sínu og því hvaða leiðir hún hefur farið í lífinu – gjarnan þvert á hefðbundnar hugmyndir um kyn, aldur eða þjóðfélagsstöðu. Hún ætlar að segja okkur frá hvernig hún gefur sér reglulega tíma til að ráðstefna sig og þann einfalda sannleika að til að ná árangri þurfi að axla ábyrgð og leggja inn þá vinnu sem nauðsynleg er til að besta sig og skara fram úr. Það ber nefnilega enginn ábyrgð á því að þú skemmtir þér í þessu partýi nema þú sjálf.

Árið 1992 flutti Helga Hlín tvítug frá Akureyri til Reykjavíkur með 4 mánaða gamla dóttur til að kaupa íbúð og hefja nám við Lagadeild Háskóla Íslands. Hún byrjaði í fullu starfi sem lögfræðingur á verðbréfamarkaði samhliða námi og var fyrsti lögfræðingurinn á Íslandi til þess. Í framhaldinu starfaði hún í 15 ár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Árið 2013 stofnaði Helga Hlín ráðgjafafyrirtækið Strategíu eftir að hafa starfað sjálfstætt sem lögmaður erlendis og setið í fjölda stjórna hér heima og erlendis. Nú 10 árum síðar er hún búin að tækla langvarandi alvarleg veikindi, landa Íslands-, Evrópu- og heimsmeistaratitlum í ólympískum lyftingum og segist vera akkúrat á þeim stað sem hún ætlaði sér fimmtug. Helga Hlín ætlar að deila með okkur sinni sögu og mikilvægi taka ábyrgð á sjálfri sér, fara sínar eigin leiðir, ráðstefna sig, besta sig – og síðast en ekki síst hafa gaman.

Helga Hlín Hákonardóttir
Eigandi og lögmaður hjá Strategíu

16:00

Happy hour í boði Símans