Image

Þann 11. maí standa Ungar Athafnakonur (UAK) fyrir sinni árlegri ráðstefnu tileinkaðri ungum konum í íslensku atvinnulífi og mun hún fara fram í Norðurljósasal í Hörpu. Yfirskrift ráðstefnunnar er UAK í 10 ár – drifkraftur breytinga en 10 ár eru frá stofnun félagsins og verður því sérstakur afmælisbragur á ráðstefnunni.

Þema ráðstefnunnar í ár mun taka mið af aldri félagsins og því verður síðasti áratugur í brennideplinum ásamt því að setja stefnu fyrir næsta áratug, bæði á einstaklingsgrundvelli og sem samfélag. Á þessum degi viljum við vekja athygli á mikilvægi kynjajafnréttis, veita vettvang til umræðna og fylla þátttakendur eldmóði. Við höfum því fengið til liðs við okkur framúrskarandi og skemmtilega fyrirlesara sem öll eiga það sameiginlegt að brenna fyrir málstaðinn.

Dagskráin er fjölbreytt en við munum heyra reynslusögur framúrskarandi kvenna í atvinnulífinu, læra hvernig við getum nýtt okkur fyrirbyggjandi læknisfræði, afhverju öryggi í framkomu getur skipt sköpum og hvernig við myndum okkur skýra framtíðarsýn. Allir þessir þættir spila mikilvægt hlutverk í að valdefla ungar konur á íslenskum atvinnumarkaði sem er eimmitt meginmarkmið félagsins.

Innifalið í miðaverði er gjafapoki, hádegismatur, kaffi og léttar veitingar að dagskrá lokinni. Við hlökkum til að sjá ykkur í Norðurljósasal í Hörpu þann 11. maí.

Við viljum benda á að margir starfsmenntasjóðir veita styrk fyrir allt að 90% af ráðstefnugjaldi. Kannaði þinn rétt hjá þínu stéttarfélagi.
Sé reikningur aðilanna á kt. fyrirtækja, þá getur fyrirtækið sótt um styrk á www.attin.is sé réttur til staðar.

ATH dagskrá ráðstefnu verður að fylgja umsókn og hlekkur á vefsíðuna ásamt greiddum reikningi á nafni félaga.

Ef fyrirtæki greiðir reikning þá þurfa sömu upplýsingar að fylgja með umsókn og reikningurinn verður að vera á nafni og kt. fyrirtækis og þá er sótt um styrk gegnum www.attin.is.

Verð:
6.500 kr. fyrir félagskonur
12.500 kr. fyrir aðra

Dagskrá


10:00

Ungar athafnakonur

Kamilla Tryggvadóttir, ráðstefnustýra UAK, býður gesti velkomna fyrir hönd stjórnar UAK.

10:20
Opnunarávarp

Sigríður Snævarr, hugsjónardiplómat og fyrrum sendiherra, flytur opnunarávarp. 

Sigríður Snævarr starfaði í 43 ár í utanríkisþjónustu Íslands og var fyrsta konan sem skipuð var sendiherra. Hún var ráðin í utanríkisþjónustuna árið 1978 þá aðeins 26 ára gömul og var fljótlega skipuð staðgengill sendiherra í Moskvu, þá höfuðborg Sovíetríkjanna. Síðan þá hefur hún afhent þjóðhöfðingjum trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í 22 ríkjum í Evrópu, Afríku og Asíu.

Sigríður eignaðist sitt fyrsta barn árið 2007 þá 55 ára gömul og er elsta konan á Íslandi, svo vitað sé, til að fæða barn. Í framhaldi af því tók hún sér hlé frá utanríkisþjónustu en stofnaði fyrirtækið Nýttu Kraftinn með Maríu Björk árið 2008 þar sem þær aðstoðuðu 1200 manns í atvinnuleit og gáfu út samnefnda bók árið 2013. Sigríður hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir sín störf, situr í fálkaorðunefnd forseta Íslands og er vinsæll ræðumaður.

Sigríður er með kennarapróf í ítölsku, B.Sc. Economics frá London School of Economics (1977) og MA próf frá Fletcher School of Diplomacy í Boston (1978).

Sigríður Snævarr
Hugsjónardiplómat & fyrrum sendiherra

11:00
UAK sófinn: Tengslanet, tækifæri og tímamót

Ungar athafnakonur spjalla saman um tilgang UAK og sína persónulegu vegferð frá því vær byrjuðu að taka þátt í starfi félagsins. Við heyrum hvað hefur á daga þeirra drifið, tækifærin og áskoranirnar og hvaða ávinningur sé af því að taka þátt í starfi eins og UAK, taka þátt í uppbyggjandi samræðum og styrkja tengslanetið. Við heyrum pælingar þeirra fyrir næstu 10 ár og helsta lærdóm frá síðustu 10 árum. 

Sigyn Jónsdóttir er CTO (tæknistjóri) og meðstofnandi Öldu, nýsköpunarfyrirtækis sem framleiðir hugbúnaðarlausn og gagnvirka fræðslu fyrir vinnustaði til að stuðla að fjölbreytileika og inngildingu. Áður hefur Sigyn starfað sem VP Customer Care hjá Men&Mice, varaformaður stjórnar Tækniþróunarsjóðs og hún var formaður Ungra athafnakvenna árin 2017-2019. Hún er með B.Sc. í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. Management Science & Engineering frá Columbia-háskóla í New York.

Sigyn Jónsdóttir
CTO (tæknistjóri) & meðstofnandi Öldu
Stýrir pallborði

Alma Dóra er framkvæmdastjóri og meðstofnandi HEIMA sem er ungt, kvenleitt sprotafyrirtæki sem er að þróa hugbúnaðarlausn sem hjálpar fjölskyldum að vinna betur saman að annarri og þriðju vakt heimilisins. Alma er með MIB í alþjóðaviðskiptum frá Hult Int. Business School í San Francisco og starfaði áður sem sérfræðingur í jafnréttismálum hjá Stjórnarráðinu og kennari í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hún stýrir einnig hlaðvarpinu Konur í nýsköpun og brennur fyrir valdeflingu kvenna í nýsköpun, atvinnulífinu og samfélag.

Alma Dóra Ríkarðsdóttir
CEO & meðstofnandi HEIMA

Guðrún Valdís er tölvunarfræðingur frá Princeton háskóla og starfar nú sem upplýsingaöryggisstjóri Syndis. Samhliða því sinnir hún öryggisráðgjöf, en áður starfaði hún við öryggisprófanir (e. penetration testing) hjá bæði Syndis og Aon í New York. Guðrún sat í stjórnum UAK og Vertonet árin 2021-2023. Þá var hún valin Rísandi stjarna ársins á Nordic Women in Tech Awards verðlaunahátíðinni árið 2022.

Guðrún Valdís Jónsdóttir
Öryggisráðgjafi & öryggisstjóri Syndis

Rakel starfar sem eignarhaldsstjóri hjá Alfa Framtak sem rekur tvo framtakssjóði. Sem eignarhaldsstjóri vinnur Rakel náið með stjórnendum þeirra félaga sem fjárfest er í að stefnumótun og fylgja eftir virðisaukandi aðgerðum á eignarhaldstíma. Rakel er nýkjörinn stjórnarformaður Origo hf. ásamt því að sitja í stjórnum Reykjafells ehf. og Gröfu og Grjót. ehf. (INVIT).
Rakel er annar stofnenda Venju sem er fyrsta bætiefnalínan þróuð fyrir konur á öllum lífsskeiðum. Hún er með B.Sc. í Rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið stjórnendanámskeiði Business Strategy and Financial Performance frá INSEAD.

Rakel sat í stjórn UAK á fyrsta starfsári félagsins.

Rakel Guðmundsdóttir
Eignarhaldsstjóri / Portfolio manager hjá Afla Framtak

11:35
Kveðja frá næstu kynslóð

Fulltrúi frá barna- og ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðannaParís Anna Bergmann
Ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna


12:00
Hádegishlé

Hádegismatur innifalinn í ráðstefnumiða.

13:00
Örugg framkoma við öll tækifæri - Verkfærakista

Sirrý Arnardóttir útskrifaðist úr félags- og fjölmiðlafræði frá HÍ og lauk ennig framhaldsnámi hjá Saga Communication fjölmiðlasamsteypunni í Bandaríkjunum. Hún á að baki sér 30 ára starfsreynslu í fjölmiðlum í útvarpi, sjónvarpi og sem ritstjóri tímarits. Sirrý er stjórnendaþjálfari og hefur unnið fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir. Frá 2008 hefur hún kennt við Háskólann á Bifröst þ.a.m Fjölmiðlafærni, Masterklass örugg tjáning, Máttur kvenna – rekstur fyrirtækis. Sirrý var framkvæmdarstjóri Píeta samtakanna, hefur unnið við almannatengsl og ráðstefnu- og fundarstjórnun. Hún hefur einnig skrifað níu bækur fyrir bæði börn og fullorðna m.a. „Betri tjáning – örugg framkoma við öll tækifæri.

Sirrý Arnardóttir
Stjórnendaþjálfari, fjölmiðlakona, rithöfundur & háskólakennari.

13:30
Að leiða breytingar

Edda lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2001 og BS-prófi í efnaverkfræði frá Háskóla Ísland 2004. Edda stundaði fræðilegar rannsóknir á málmum hentugum til vetnisgeymslu í MS-námi sínu við HÍ, sem hún lauk árið 2006. Sama ár hóf hún doktorsnám við sama skóla í samstarfi við Lawrence Berkley-rannsóknarstofnunina í Kaliforníu. Hún lauk doktorsnámi árið 2011. Á rannsóknarferli sínum hefur Edda hlotið fjölda styrkja og stýrt stórum samstarfsverkefnum sem meðal annars eru styrkt af rammaáætlun ESB um orkumál.

Edda Sif Aradóttir
framkvæmdastýra Carbfix

13:55
Teygðu þig í tunglið - Að skapa skýra framtíðarsýn

Dagný Gísladóttir er meðstofnandi og framkvæmdastýra Rvk Ritual. Dagný er menntuð í BA í Ritlist og Listfræði með MA í Ritstjórn & útgáfu. Hún hefur starfað að mestu í heilsugeiranum, unnið mikið við ritstörf, ritstjórn og markaðstörf og var framkvæmdastýra Gló um árabil. Hún er lærður jóga, hugleiðslu og öndunar kennari og hefur ástríðu fyrir sjálfseflingu og aukinni vellíðan kvenna.

Dagný Berglind Gísladóttir
Stofnandi & framkvæmdastýra Rvk Ritual


14:15

Kaffihlé

14:30
Gelluhugvekja & vinnustofa

Drögum saman 10 ár og pælum í því hvað við ætlum að taka með okkur inn í næstu 10 ár. Amna og Kristjana hafa skipulagt og haldið GelluVinnustofur sem eru tímamótavinnustofur þar sem þátttakendur setja sér ásetning og stunda þakklæti ásamt því að ræða hvað hamingja er. Kristjana og Amna munu segja stuttlega frá því hvernig GelluVinnustofurnar virka og hvernig þær urðu til. Að því loknu munu Inga og Kristjana leiða ráðstefnugesti í gegnum vinnustofu þar sem bæði verður horft inn á við og fram á veginn þar sem síðustu 10 ár verða dregin saman með bland af hugmyndafræði GelluVinnustofunnar.

Amna vinnur við viðskiptaþróun hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Öldu og var stjórnarkona UAK árin 2019-2021. Hún er með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ og viðbótardiplómu í hagnýtri jafnréttisfræði frá sama skóla. Áður vann hún sem markaðssérfræðingur hjá Alvotech og við kynningarmál hjá Heimsþingi Kvenleiðtoga.

Amna Hasecic
Sérfræðingur í viðskiptaþróun hjá Öldu

Kristjana Björk starfar sem verkefnastjóri hjá Stafrænni Reykjavík. Hún er bæði tölvunarfræðingur og iðnaðarverkfræðingur en elskar að vinna þar sem þetta tvennt og fólk mætist. Hún situr í stjórn Ský og heldur gelluvinnustofur í frítíma sínum en hún hefur áður setið í stjórn UAK.

Kristjana Björk Barðdal
Verkefnastjóri hjá Stafrænni Reykjavík

Inga sér um B2B markaðsmál og samfélagsmiðla hjá Símanum og var stjórnarkona UAK árin 2020-2022. Hún er fædd og uppalin á Akranesi, en flutti til Bandaríkjanna til að læra tónlistarviðskiptafræði og lagaskriftir í Berklee College of Music. Þaðan fór hún yfir til L.A. þar sem hún vann á umboðsmannaskrifstofu Diplo og Skrillex.

Inga María Hjartardóttir
Markaðssérfræðingur hja Símanum

15:15
Ábyrgjumst eigin heilsu - Fróðleikur um fyrirbyggjandi læknisfræði

Una Emilsdóttir er menntuð við Kaupmannahafnarháskóla og er nú í sérnámi í atvinnu- og umhverfislæknisfræði í Danmörku. Að loknu námi starfaði hún á taugadeild og geðdeild í Kaupmannahöfn, og síðar á Landspítalanum og á heilsugæslu. Á námsárum sínum hreifst hún af faginu umhverfislæknisfræði, en þar er fjallað um eiturefni í umhverfi, matvælum, snyrtivörum o.fl., en slík efni geta haft verulega mikið að segja fyrir heilsu manna. Hún hefur það meginmarkmið að upplýsa neytendur um skaðleg efni í nærumhverfi, sem oftast nær eru falin og óþekkt neytendum, og tengingu þeirra við langvinna sjúkdóma, sem og mikilvægi ónæmiskerfisins í því samhengi. Hún mun fjalla um áhrif ákveðinna efna í umhverfi okkar, með fókus á heildaráhrif og hvað má gera betur til að sporna við útsetningu fyrir slíkum efnum. Hún segir að hver og einn geti tekið ábyrga afstöðu varðandi sitt nærumhverfi. Una hefur haldið fyrirlestra af þessu tagi frá árinu 2015 við góðar undirtektir, verið viðmælandi í hlaðvörpum, sjónvarpi og útvarpi og þar að auki verið gestahöfundur í bókinni “Máttur Matarins” sem kom út árið 2016. Hún situr þar að auki í stjórn Fræðslustofnunar Lækna og stjórn Félags Lækna gegn Umhverfisvá þar sem hún beitir sér fyrir bættu umhverfi fyrir neytendur og landsmenn alla. 

Una Emilsdóttir
Sérnámslæknis í atvinnu- og umhverfislæknisfræði

15:40
Ekkert handrit til staðar

Dóra Jóhannsdóttir útskrifaðist með BfA gráðu í leiklist úr LHÍ árið 2006. Hún lærði spuna (improv) og sketsa-skrif í Bandaríkjunum og stofnaði félagasamtökin Improv Ísland árið 2015. Dóra hefur starfað sem leikkona í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, með ÍD og sjálfstæðum leikhópum sem og í verkefnum fyrir sjónvarp og bíó.
Dóra var einn af höfundum spennu-þáttanna Stella Blómkvist 2 sem var tilnefnt til Eddu-verðlauna sem besta handrit. Hún var yfir-handritshöfundur í Áramótaskaupinu 2017 og 2019 og leikstýrði því árið 2022. Áramótaskaupið hlaut Edduna öll þessi ár sem skemmtiþáttur ársins og árið 2022 hlaut Skaupið bestu viðtökur almennings samkvæmt könnun Maskínu síðan mælingar hófust.

Hún er nú í masters-námi í ritlist við Háskóla Íslands og stofnaði nýlega kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Djók Productions ehf  sem vinnur að þróun sjónvarps-seríu og kvikmyndar í fullri lengd sem og bókaútgáfu.

Dóra Jóhannsdóttir
Leikkona, höfundur, stofnandi Improv Ísland & Improv skólans

16:00
Afmælis Happy hour