UAK veitt viðurkening fyrir ráðstefnu 2023

In Fréttir by Aðalheiður Júlírós

Skörungur – íslensku ugnemnnaverðlaunin fóru fram í fyrsta sinn þriðjudaginn 5. desember á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans en það var Landssamband ungmennafélaga (LUF) sem stóð fyrir viðburðinum. Veitt voru verðlaun og viðurkenningar í fjórum flokkum; Verkefni ársins, Framlag til mannréttinda, Framtak í þágu ungs fólks og Sjálfboðaliði ársins.

UAK hlaut viðurkenningu í flokknum verkefni ársins fyrir ráðstefnu félagsins 2023 Jafnrétti á okkar lífsleið. Markmið ráðstefnunnar var að vekja athygli á alvarlegri afturför í jafnréttismálum samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. En í skýrslunni kemur skýrt fram að loftlagsbreytingar, heimsfaraldur COVID-19 og stríð í Úkraínu eru meðal áhrifavaldandi þátta fyrir því að kynjajafnrétti náist ekki fyrir árið 2030, eins og áform voru um, heldur mun það ekki nást fyrr en í fyrsta lagi eftir 300 ár.

María Kristín Guðjónsdóttir, Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir og Kristín Sverrisdóttir tóku við viðurkenningunni fyrir hönd stjórnar UAK 2022-2023.

UAK óskar öllum þeim sem hlutu viðurkenningu eða Skörunginn sjálfan í flokkunum fjórum innilega til hamingju.