UAK fór af einlægum áhuga og krafti inn í samstarfsviðburð Global Goals World Cup (GGWCUP). Það eru góðgerðasamtökin EIR Org sem standa að GGWCUP en samtökin koma einnig að fjórum sambærilegum verkefnum. Samstarfsnet EIR Org fyrir GGWCUP samanstendur af fjölmörgum alþjóðlegum samstarfsaðilum sem vinna af miklum krafti að auknu jafnrétti og sjálfbærni um allan heim. Fótboltamótið hefur verið brautryðjandi í íþróttaheiminum frá árinu 2015 með það að leiðarljósi að veita öllum konum og stúlkum aðgang að íþróttum.
Dagana 8. – 10. nóvember voru úrslit GGWCUP haldin í Origo höllinni þar sem lið kepptu undir merkjum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Eliza Reid, forsetafrú, setti dagskrá mótsins en að mótinu komu einnig helstu íþróttakonur landsins, þjóðþekktar listakonur og konur úr stjórnmálum. Með mótinu átti að vekja athygli á þeim hindrunum sem eru til staðar, leita leiða að sjálfbærni ásamt því að efla aðgerðir tengdar Heimsmarkmiðunum. Samhliða því voru haldnir fjölmargir smærri viðburðir víðsvegar um borg til heiðurs þátttöku kvenna og þeim mikilvægu markmiðum sem mótið stendur fyrir. Meðal viðburðanna var móttaka sem UAK stóð fyrir ásamt Danska sendiráðinu. Í móttökunni mættu konur sem framarlega eru í sjálfbærni geiranum og ræddu sérstöðu Íslands í þeim málum. GGWCUP er eitt af rúmlega hundrað samstarfsaðilum Heimsmarkmiða vikunnar sem fer fram í kringum árlegt allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (UNGA) en úrslit mótsins hafa farið fram samhliða þinginu frá árinu 2016.
Það var jórdanska liðið, Team Leaf A Mark sem bar sigur úr bítum undir Heimsmarkmiði 15: Líf á landi. Þar sem lögð er áhersla á vernda og endurheimta vistkerfi á landi og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra, vinna að sjálfbærri stjórn skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu, endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Sigurliðið hlaut veglegan verðlaunagrip sem gerður var af listakonunum sem standa á bak við Fléttu.
Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir hérlendis lögðu okkur lið og styrktu okkur í þessu einstaka verkefni. Stuðninginn á UAK mikil þakkarþel að bera. Við fögnum jafnframt auknum meðbyr og víðtækari þátttöku okkar að jafnrétti á öllum sviðum. Við erum ákaflega stoltar af því að Global Goals World Cup hafi verið haldið hérlendis samhliða árlegu Heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu (Reykjavík Global Forum), þar sem kvenleiðtogar hvaðanæva að úr heiminum komu saman í þeim tilgangi að ræða jafnréttismál ásamt því að deila hugmyndum sínum og reynslu. Boðsgestir heimsþingsins voru stjórnmálaleiðtogar, auk alþjóðlegra kvenleiðtoga úr hinum ýmsu geirum á borð við viðskipti, vísindi, tækni og menningu.
Samstarf UAK við GGWCUP markaði tímamót fyrir báða þátttökuaðila en á Heimsþingi kvenleiðtoga var viðburðurinn og EIR Org heiðrað sérstaklega með verðlaunum „the Power, Together“. Verðlaunin eru mikill heiður og er það okkur ánægja að geta lagt frumkvöðlum í jafnréttisbaráttunni lið með samvinnu í verkefninu. Global Goals World Cup er einstakur viðburður á heimsvísu sem sýnir samstöðu kvenna, áhuga og mikilvægi að jöfnum tækifærum. Ljóst er að enn er langt í land og sú barátta sem háð hefur verið að jafnrétti er hvergi nærri lokið. Ungar athafnakonur munu standa sína plikt og efla konur um ókomna framtíð í lífi og starfi.
