Ungt athafnafólk

In Pistlar by Elísabet Erlendsdóttir

Eflaust geta allir verið sammála því að undanfarið hefur verið mikill framgangur hjá ungu fólki í jafnréttismálum á Íslandi. Jafnrétti byggist á virkri þátttöku allra; hins opinbera, stjórnmálamanna, stjórnenda fyrirtækja, minnihlutahópsins sem við á og öðrum í samfélaginu. Til viðbótar þarf opna umræðu og beita öllum tiltækum úrræðum svo ekki verði afturför í þeim árangri sem þegar hefur náðst. Þrátt fyrir ágætan árangur er enn úr ýmsu að bæta.

Jafnrétti á vinnumarkaði

Mun fleiri konur en karlar ljúka menntun á háskólastigi ásamt því að atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi. Þrátt fyrir það rúmlega tvöfaldaðist fjöldi atvinnulausra kvenna með háskólamenntun á árunum 2012-2014 en fjöldi atvinnulausra karla með sömu menntun dróst saman á tímabilinu. Þá hefur, samkvæmt árlegri launakönnun meðal félaga VR sem birt var fimmtudaginn 15. september, launamunur kynjanna lítið breyst undanfarin ár – konum enn í óhag.

Fleiri karlar sem heita Orri stýra skráðu félagi í Kauphöll Íslands í dag heldur en konur. Það er reyndar bara einn forstjóri sem heitir Orri og stýrir skráðu félagi, en einn karl er einum fleiri en engin kona. Eftir að Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur var vikið úr stöðu forstjóra VÍS þann 29. ágúst síðastliðinn er engin kona sem situr í forstjórastól skráðra félaga í Kauphöll Íslands í dag.

Framsækin lög um fæðingarorlof voru sett árið 2000 sem tryggja báðum foreldrum rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs auk þriggja mánaða sem þeir geta deilt sín á milli. Markmið laganna var að skapa markvissan stuðning sem gerir báðum foreldrum kleift að annast börn sín en jafnframt sinna störfum á atvinnumarkaði. En á 5 árum hrapaði hlutfall þeirra karla sem taka fæðingarorlof eða þiggja fæðingarstyrk um tæp 9%, úr 85% árið 2009 í 76% árið 2014.

Erfitt er að trúa að kynferði ráði för þegar ofangreindar staðreyndir eru skoðaðar en einhverjar ástæður liggja að baki. Mér þykir það miður en jafnrétti kynja á vinnumarkaði hefur ekki verið náð.

Ungar athafnakonur

Ungt fólk, sem er að stíga sín fyrstu skref á atvinnumarkaðnum, stendur greinilega frammi fyrir alls konar krefjandi áskorunum. Hvernig byggi ég upp ferilskrá? Hvernig bið ég um launahækkun? Hvað gerist ef ég eignast barn? Hefur kynferði mitt kannski áhrif á starfsmöguleika mína?

Félagið Ungar athafnakonur (UAK) er félag fyrir ungar konur sem vilja skara fram úr á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að geta brugðist við þeim vandamálum sem þær standa frammi fyrir á atvinnumarkaði. Á stofnfundi félagsins í september 2014 mættu hátt í 200 ungar konur sem gefur ágæta vísbendingu um hversu mikil raunverulega þörfin fyrir slíkt félag er.

Síðan þá hafa fjölmargar konur skráð sig í félagið og þátttakan farið vaxandi. Félagið leitast við að skapa vettvang fyrir konur til að fræðast um málefni sem tengjast nútímasamfélagi, efla hvor aðra og fá ráðgjöf og leiðsögn. Þannig myndast ómetanlegt tengslanet milli kvenna sem vinna að samskonar markmiðum. Það besta við félagið er samstaðan, þar sem konur hvetja hverja aðra til að takast á við áskoranir. Konur eru nefnilega konum bestar.

Komandi starfsár

Til þess að aðstoða félagskonur við að öðlast sjálfstraust, þekkingu og færni til þess að stíga óhræddar fram og sækjast eftir krefjandi verkefnum mun UAK standa fyrir fjölda viðburða á komandi starfsári.

Fyrsti viðburðurinn er nú þegar liðinn en þá ávarpaði frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrsti lýðræðislega kjörni kvenkyns forseti í heiminum, viðstadda gesti. Hún sagði frá fjölmörgu skemmtilegu og áhugaverðu úr forsetaframboðinu og embættinu sjálfu. Einnig flutti Kristín Friðgeirsdóttir stjórnarformaður Haga erindi en hún er Ph.D. í rekstrarverkfræði frá Stanford University og starfar sem dósent við London Business School. Hún fór sérstaklega í gegnum fjögur atriði sem hún telur að stuðli að velgengni á starfsferlinum: Að einbeita sér að styrkleikum sínum, að læra að taka gagnrýni og nýta hana á uppbyggilegan hátt, að finna sér leiðbeinanda og að trúa á heppni.

Þá ætla UAK í heimsókn í Icelandic Startups en þrátt fyrir að umfang frumkvöðlastarfsemi hér á landi sé talsvert benda rannsóknir til þess, með örfáum undantekningum, að færri konur taki þátt í frumkvöðlastarfi en karlar. Til að auka færni í samskiptum verður haldið námskeið í framkomu og ræðumennsku ásamt því viðburðir byggðir á hópefli verða haldnir svo félagskonur kynnist betur og stækki tengslanet sitt. Þemaviðburður starfsárs fyrir jól ber yfirskriftina „Konur í karllægum geirum” þar sem rætt verður við konur sem vinna í karllægum atvinnugreinum og þær fá tækifæri til að deila reynslu sinni.

Jafnir möguleikar

UAK vill stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og eiga jafna möguleika á sömu tækifærum. Markmið UAK er að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. Ungar athafnakonur munu starfa og vinna að jafnrétti með hvatningu, fræðslu og opinni umræðu þar til konur og karlar standa jöfnum fótum í íslensku samfélagi. Það stendur enginn vörð um okkar réttindi nema við sjálf.

Ungar konur eiga nefnilega ekki að sætta sig við að fá lægri laun, að engin kona stýri skráðu félagi og að hin heðfbundnu kvennastörf eins og hjúkrunarfræði eða leikskólakennsla séu metin til lægri launa. Ungir foreldrar eiga ekki að sætta sig við að nýbakaðir feður taki síður fæðingarorlof eða þiggi fæðingarstyrk. Það er erfitt að segja til um hvaða ástæður liggja að baki, hvort það sé vegna úreltra viðhorfa í garð ungra feðra eða því tekjutapið fyrir heimilið verði meira en ef annað foreldrið snýr fyrr til vinnu en ella.

Ungt athafnafólk

Rétta þarf kynjahallann í fleiri starfsstéttum en þar sem hallar á konur því jafnrétti er lykilatriði í sjálfbærri þróun samfélaga þar sem jöfn kynjahlutföll skila bestum árangri og eru hagsmunamál heildarinnar. Til þess að efla slíkan framvöxt er mikilvægt að fá alla með í samtalið um hvaða ráðum sé best að beita. Ungmennahreyfingar á borð við UAK, þar sem einstaklingar hafa tök á að ræða saman og fræðast á jafningjagrundvelli, getur spilað veigamikinn þátt í að ná árangri.

Þá hefur UAK haldið opna viðburði þar sem ungir karlmenn eru sérstaklega hvattir til að mæta ásamt því að fá áhugaverða og framsækna karla til að mæta í pallborðsumræður eða flytja erindi. Stefna UAK er að fjölga slíkum viðburðum til að ná langtímamarkmiði félagsins sem er, eins og Lilja Gylfadóttir stofnandi UAK og fyrsti formaður orðaði svo pent: „Að ekki verði lengur þörf fyrir félagið Ungar athafnakonur heldur taki við félagið Ungt athafnafólk”.

Þessi pistill birtist upphaflega á www.romur.is