Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að auka samfélagslega ábyrgð í rekstri Krónunnar og hefur Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri, verið áberandi sem leiðtogi þeirrar vegferðar. Hún segist stöðugt leita leiða til þess að ná betri árangri og að hún sé löngu búin að átta sig á því að hún lærir mest af mistökum.
Í erindi sínu deildi Gréta sinni skoðun sinni á því hvað þurfi til þess að ná árangri í samfélagslegri ábyrgð. Loforð Króunnar er að koma vörunni á sem ódýrastan hátt til viðskiptavina og kallar Gréta það loforð grunninn sem húsið er byggt á. Fyrirtækið er á samkeppnismarkaði en leitast við að skapa sér sérstöðu með því að vera framar en samkeppnin í samfélagslegri ábyrgð.
„Það er okkar hlutverk að láta viðskiptavini fá allar þær upplýsingar sem þeir þurfa til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun” segir Gréta og að aðeins sé tímaspursmál þar til viðskiptavinurinn fari að gera þá kröfu að upplýsingar um kolefnisfótspor vörunnar séu til staðar. Þegar kallið komi ætli Krónan sér að vera tilbúin og er þróun á Snjallverslun Krónunnar þegar hafin. Til að byrja með verði hægt að skanna inn strikamerki vöru og fá upp ýmsar upplýsingar um vöruna, s.s. verð vörunnar hjá Krónunni, innihaldslýsingu og næringargildi. Í framtíðinni sér hún síðan fyrir sér að viðskiptavinurinn muni geta skannað, og þar með greitt fyrir, vöruna sjálfur beint ofan í körfuna.
Krónan hefur þegar tekið stór skref með það að markmiði að stuðla að bættri lýðheilsu. Sölu sælgætis við kassa hefur verið hætt og fermetrafjöldi undir ávexti og grænmeti aukinn í verslunum í því skyni að ferskvara verði stærri hluti af matarkörfu viðskiptavinarins. Þá hefur einnig dregið mikið úr matarsóun hjá fyrirtækinu með bættri birgðastjórnun og með lækkuðu verði vara sem komnar eru á síðasta séns. Unnið er að því að Svansvotta allar verslanirnar og þegar séu 2 af 25 verslunum komnar með stimpilinn.
„Umhverfið breytist, viðskiptavinirnir breytast, og þá þurfum við að breytast með” segir Gréta og bætir við að Krónan sé stöðugt að leita leiða til þess að einfalda viðskiptavininum lífið og gera upplifunina betri. Búðirnar bjóða t.a.m. upp á „bita fyrir börnin” sem auðveldi foreldrum með lúin börn að versla inn. Sjállfsafgreiðslukassana segir Gréta einnig hafa gefist afar vel auk þess sem viðskiptavinum er boðið að skilja eftir pappa- og plastpakkningar af vörum.
Þessar aðgerðir hafa verið til þess fallnar að Krónan sé nú eftirsóttari vinnustaður og eigi einnig ánægðustu viðskiptavinina, ekki bara á matvörumarkaði heldur einnig smásölumarkarkaði samkvæmt Ánægjuvoginni 2019. Sjálfbærni sé ekki verkefni, heldur vegferð og viðskiptavinirnir séu tilbúnir í vegferðina með þeim. „Í krafti stærðar okkar getum við haft áhrif til góðs” segir Gréta. „Leggjumst öll á eitt, saman getum við haft áhrif”.