Vel heppnað kvöld hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi

In Fréttir by Helena Rós Sturludóttir

Ungar athafnakonur fjölmenntu í vísindaferð til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í Húsi atvinnulífsins þann 14. desember sl. Ríflega 50 félagsskonur mættu á viðburðinn sem þótti afar vel heppnaður.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, nýr framkvæmdastjóri SFS, opnaði kvöldið með fræðandi og skemmtilegu erindi. Næst steig Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, í pontu og fræddi félagskonur um fyrirtækið og sem og sjávarútveginn. HB Grandi hf. á sér langa sögu og býr að mikilli reynslu og þekkingu á nýtingu auðlinda og framleiðslu sjávarafurða. Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS, tók svo við boltanum og fræddi okkur um ýmsa hluti þ.á.m um nýja heilsudrykkinn Öldu sem hannaður var af íslenska sjávarklasanum og inniheldur náttúrulega efnið kollagen, sjá meira um hann hér. Félagskonur fengu svo að smakka drykkinn og voru flestar sammála um gæði hans.

Sjávarútvegurinn er ein stærsta og mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga og hefur hún tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Mikill áhugi var á málefninu og brunnu fjölmargar spurningar á félagskonum, en þarna fengum við kjörið tækifæri til að spyrja reynslubolta sjávarútvegsins spjörunum úr.

Ungar athafnakonur þakka SFS kærlega fyrir sig. Um leið vill stjórn UAK þakka félagskonum fyrir frábært samstarf á árinu sem er að líða og óskum ykkur öllum gleðilegra jóla.

Við hlökkum mikið til að hefja næsta ár með pompi og prakt í janúar en nánari upplýsingar koma um það síðar.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár,

Stjórn UAK