„Verið ekki hræddar við að gjósa“

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

„Án þess að gera breytum við ekki heiminum,“ sagði Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, fyrrverandi þingkona Kvennalistans, í erindi sínu á UAK deginum. „Þið eruð uppteknar við að gera eins og kvennabaráttukonur allra tíma.“

Sigríður Dúna segir kvenréttindabaráttuna samfellu, eða eins konar keðju, sem einkennist af núningi og spennu, flekaskilum yfirborðsgerðar og grunngerðar, sem gjósi reglulega. „Rauðsokkuhreyfingin, framboð Vigdísar Finnbogadóttur og framboð kvennahreyfingarinnar voru gos. Mörg gos hafa síðan bæst í hópinn, misjafnlega stór, og smám saman verður til heilt eldfjall af reynslu og þekkingu.“

„Ég hef aldrei fyrr eða síðar upplifað jafn mikla gleði í samstarfi og í upphafi þessarar hreyfingar,“ sagði Sigríður Dúna um upphaf kvennahreyfingarinnar og stofnun Kvennalistans. „Ég var ekki lengur ein að basla. Við vorum saman í baráttunni og það var stórkostlegt.“

En hverjum dytti svosem í hug að það væri eintómt gaman að breyta heiminum?

Kvennalistinn braut blað í sögu kvennabaráttunnar með því að ná þremur konum inn á þing árið 1983 og segir Sigríður Dúna að karlamenningin inni á þingi hafi verið verst, sérstaklega sú tilhneiging að hlusta ekki á konur. „Mér fannst stundum eins og enginn heyrði það sem ég sagði í ræðustól,“ rifjaði Sigríður Dúna upp. Stundum hafi það þó farið í hina áttina, þegar út brutust hrútskýringar, svo sem um hversu góð brjóstamjólk væri fyrir ungabörn.

Sigríður Dúna sagði sem betur fer ljóst að gríðarlegar breytingar hefðu orðið á íslensku samfélagi frá því hún sat á þingi, og sérstaklega í hugarfari. „Fólk áttar sig á því að það lifir í karllægu samfélaginu. Það er í hugarfarinu sem grunnurinn að breytingum liggur.“

Til þess að mölbrjóta glerþakið sagði Sigríður Dúna í fyrsta lagi miklvægt að konur stæðu saman. Henni þætti verst að sjá konur sem hefðu aðstöðu til ekki velja aðrar konur í ábyrgðarstöður. „Arfur karlveldisins er að treysta ekki konum. Ef þið hafið stöðu til, ráðið þá konur í ábyrgðarstöður. Gefið þeim tækifæri og vantreystið þeim ekki.“

Í öðru lagi sagði Sigríður Dúna að konur skyldu nota hvert tækifæri til þess að benda á þær hindranir sem þær rækjust á og í þriðja lagi lagði Sigríður Dúna áherslu á mikilvægi tengslanets.

Síðast en ekki síst sagði Sigríður Dúna nauðsynlegt að læra af reynslu þeirra kvenna sem á undan komu. „Eitt sem má læra af okkur Kvennalistakonum að sú aðferð að ógna hagsmunum karla svínvirkar. Við tókum frá þeim atkvæðin, sem skipta öllu máli í stjórnmálum. Þá urðu þeir að hlusta.“

„Verið ekki hræddar við að gjósa. Gosið skilar árangri. Það er aðeins með því að láta rödd okkar hljóma sem við getum breytt heiminum.“