„Verið með bjargráð og teflonhúðaðar fyrir ruglinu“

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

,,Ég ætla að taka þátt í að breyta kerfinu þannig að það henti okkur öllum” sagði Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi, í fyrirlestri sínum á UAK deginum.

,,Ég kalla eftir upplýstri umræðu um að breyta kerfinu og ég mun þurfa á ykkar [ráðstefnugesta] aðstoð að halda. Ég stend allt í einu hér sem stjórnandinn og ég ætla að taka þátt í að breyta kerfinu“.

Guðbjörg Heiða er iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands en hún vann um tíma hjá fjárfestingafélagi, meðal annars í kreppunni. Til að forðast að verða ,,business bitch” – eins og hún orðaði það – sagði hún starfinu þar lausu. Hún fann svo sína köllun í vöruþróun hjá Marel árið 2011 þegar hún hóf störf hjá fyrirtækinu, sem er alþjóðlegt hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og lausna fyrir matvælaiðnað.

Guðbjörg Heiða tók svo við sem forstöðumaður vöruhönnunar hjá Marel árið 2016. Á þessum tíma voru 5% yfirmanna í vöruþróunardeild konur en í gegnum drastískar breytingar og umbótaverkefni í jafnréttismálum og fyrirtækjamenningu Marel tókst Guðbjörgu að auka hlutfall kvenna sem yfirmenn í vöruþróunardeild um 45%.

,,Þetta var ógeðslega erfitt ferli og það var erfitt að mæta í vinnuna sjúklega stressuð að fara í gegnum þetta ferðalag. Ég vildi breyta kerfinu, riðla öllu og setja inn nýtt fólk alls staðar. Auðvitað verða árekstrar,“ sagði Guðbjörg sem lagði einnig mikla áherslu á upplýsingaflæði í fyrirtækinu. ,,Það er rosalega mikilvægt jafnréttismál, því þá sitja allir við sama borð. Einn af mínum styrkleikum er að miðla upplýsingum og ég hef nýtt mér það. Labba beint út og segja hvað er að gerast, láta þannig alla vita af öllu“.

Sjálf segist hún líta á sig sem atvinnumann í að vera stjórnandi. ,,Ef ég ætla að vera góður stjórnandi þarf ég að æfa mig og læra, lesa, hlusta, hitta mentora, hitta sálfræðinga og leggja á mig til að verða góð í því sem ég er að gera. Rétt eins og íþróttamenn æfa fyrir stórmót,” útskýrði hún.

Guðbjörg lagði jafnframt áherslu á að það megi gera mistök og að stundum komi slæmir dagar. Með það hugarfar getur hún vaxið áfram sem atvinnumaður í því sem hún gerir – að vera stjórnandi.

Á persónulegu nótunum gaf Guðbjörg svo ráðstefnugestum góð ráð um að fylgja eigin sannfæringu.

,,Þú endar ekki á að svíkja sjálfa þig, það einfaldar hlutina og þú endar oftast á að fá eitthvað miklu betra. Leyfið óttanum að vera en ekki ráða. Takið upplýstar ákvarðanir um hvernig þið ætlið að stýra ykkar lífi, verið með bjargráð og teflonhúðaðar fyrir ruglinu,” sagði hún.

Að lokum lagði Guðbjörg áherslu á samstöðu kvenna, þær ættu að lyfta hverri annarri upp.

,,Njótið ferðalagsins sem lífið ykkar er og pikkið upp konurnar í kringum ykkur. Reynist þeim vel því að gefur manni svo ótrúlega mikið“.