,,Við þurfum hæfustu teymin með alls konar bakgrunna og eru fjölbreytt svo þau nái árangri”

In Fréttir, UAK-dagurinn by Fréttaritari UAK dagurinn 2018

Í öðrum af tveimur panelum UAK dagsins var fjallað um störf framtíðarinnar með tillit til stöðu og sjónarmiða kvenna í atvinnulífinu. Eru konur í minnihluta í þeim greinum sem verða hvað mest áberandi í fjórðu iðnbyltingunni? Ef já, hvað er hægt að gera? Gestir voru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra, Ægir Már Þórisson forstjóri Advania, Stefanía G. Halldórsdóttir framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun og Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík.

Veitum konum virðingu

Gestir panelsins hófu á að ræða hvernig við getum brugðist við nýrri tækni og framtíðarstörfum sem þeim fylgja. Að mati viðmælenda eru væntanlegar breytingar á vinnumarkaði svo miklar að líta þarf á þær sem tækifæri til að byrja alveg frá grunni, einna helst þegar kemur að kynjahlutfalli. Að mati Ægis Má þarf viðhorf samfélagsins til kvenna og framtíðarstarfa að vera rétt. Samfélagslegt viðhorf til tæknilegra starfa hefur hingað til verið nokkuð karllægt og því þarf að breyta. Þórdís Kolbrún telur konur þurfa að fá þá virðingu sem þær þurfa til þess að viðhorfið breytist. ,,Ef við ætlum að leggjast í aðgerðir til að auka hlut kvenna í störfum framtíðarinnar þarf að sýna vilja í verki með því að veita konum virðingu og þar með aukin völd á vinnumarkaði.” sagði hún. Stefanía telur að staðan skrifist á okkur sem uppalendur og þá samfélagsumgerð sem við við höfum búið til hvað varðar tæknileg störf.

Samtal og fyrirmyndir lykilatriði

Þá svöruðu gestir panelsins spurningum úr sal þar sem sneru meðal annars að hugarfarsbreytingum, leiðum til að fá konur í tæknistörf og hvað þau sem leiðtogar geta gert til að vinna að kynjajafnrétti í atvinnulífinu. Þórdís Kolbrún talaði um mikilvægi tengslanets og tók dæmi um hvað vettvangur líkt og Ungar athafnakonur skipti miklu máli fyrir tengslanetið og hvernig er hægt að nýta sér það. Samkvæmt Ægi Má er samtal líkt og þetta ásamt fyrirmyndum í tæknistörfum lykilatriði í að fá konur meira inn í tækni. Stefanía er hætt að horfa á störf sem fræðingastörf og vinnur að því að búa til frábær teymi. Hún tók dæmi um að konur eigi auðvelt með þverfaglega vinnu og tæknistörfin eru að breytast svo mikið svo það er svo mikilvægt að konur komi inn í störf þar sem hlutir eins og hönnun og tækni blandast saman.

Aðspurður um áherslumál í kennslu fyrir störf framtíðarinnar sagði Ari Kristinn að það þarf að breyta því hvernig námsbrautir eru skipulagðar og opna meira fyrir nemendur og fyrirtæki til að vinna saman. En varðandi konur og tæknimenntun tók hann dæmi um verkefnið Stelpur í tækni þar sem Háskólinn í Reykjavík býðir öllum stelpum í 10. bekk í skólann og áhugaverð fyrirtæki til að kynnast tækni á grundvelli sem hentar þeim.

Lengja fæðingarorlof og bæta viðhorf

Að lokum svaraði Þórdís Kolbrún því hvernig væri hægt að bæta fæðingarorlof svo samkeppnin sé jöfn á milli kynja í störfum framtíðarinnar. Samkvæmt henni er lykilatriði að lengja fæðingarorlof og hækka markið. ,,Karlemnn eru oftar í betri launuðum störfum og því oft ómögulegt að karlar taki fæðingarorlof. Ef þú hækkar þakið taka fleiri karlmenn fæðingarorlof”. Hún tók dæmi um fáránlegar spurningar sem hún fékk, nýorðin ráðherra með 3 mánaða gamla dóttur, til dæmis hvar barnið hennar væri. Í grunninn sé þetta viðhorf sem þurfi að breytast í gegnum samtalið.