Helgu Brögu Jónsdóttur þarf vart að kynna fyrir Íslendingum. Við hjá UAK fengum leyfi til að birta hluta úr viðtali við hana sem okkur þótti sérstaklega áhugavert að lesa í ljósi kynjaumræðunnar sem þar fer fram í tengslum við leiklist og uppistand. Viðtalið var tekið var í fyrra og birt í Skólablaðinu Skinfaxa (bls. 36-40).
Jæja eigum við ekki bara að byrja á byrjuninni? Hvar fæddist þú og ólst upp? Á Akranesi. Utanbæjartútta. Foreldrar mínir eru bæði frá Snæfellsnesi. Mamma flutti svo á Akranes þegar ég var eins árs og ég ólst þar upp. Ég kláraði Fjölbrautaskólann þar og svo bara daginn eftir stúdentspróf flutti ég til Parísar. Akranes var aðeins of lítið.
Hvað tók svo við þegar þú komst heim? Það var tekið inn í leiklistskólann þrjú ár í röð og svo ekki fjórða árið. Það var akkúrat árið sem ég útskrifaðist en ég var eiginlega mjög fegin að fá smá pásu. Þá fór ég í dans og söng og að undirbúa mig fyrir inntökuprófið í skólann.
Var eitthvað sérstakt sem hafði þau áhrif á þig að þú heillaðist af leiklist? Já, bæði pabbi minn, Jón Hjartarson, og bróðir minn, Hjörtur Jóhann Jónsson, eru leikarar. Svo er systir mín í leiklistarskóla, hin systir mín óperusöngkona, mágkona mín leikmyndahönnuður og stjúpmamma mín leikkona. Þetta er ekkert voðalega frumlegt.
Ég kem semsagt úr leiklistarfjölskyldu. Pabbi var leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur og fljótlega eftir að ég byrjaði að tala var ég ákveðin í að verða leikkona. Fyrsta stóra hlutverkið mitt var Lína Langsokkur hjá Skagaleikflokknum á Akranesi þegar ég var fimmtán ára. Ég fór bara í prufu, eins og allar rauðhærðar stelpur á Skaganum sem höfðu verið að leika.
Hvernig var það fyrir unga leikkonu að halda sér uppi með leiklist? Ég var ótrúlega heppin. Ég meina, maður veður ekkert í peningum. Ég man að ég var rosalega hissa þegar ég fékk fyrsta launatékkan frá Þjóðleikhúsinu. Það var bara örlítið meira en lánasjóðsgreiðslan. Maður hugsaði með sér „Vó, er þetta það sem ég er búin að vera mennta mig fyrir í fjögur ár? Eru þetta launin?“. Maður var ekkert að kaupa sér íbúð og bíla. En þetta er ofboðslega gaman.
Eins og vænta mátti breyttist margt þegar Helga fór að taka þátt í að skrifa handritin að Fóstbræðrum. Dagar aukahlutverkanna voru liðnir og hún fór að leika stærri hlutverk í þáttunum. Þarna fóru hlutirnir að gerast fyrir alvöru í kvenhlutverkunum. Þá urðu karakterarnir Brünhilde og Gyða Sól til og fleiri bættust við. Það er svo skrýtið, það er eins og konur þurfi að sjá um þetta sjálfar. Ég þurfti sjálf að breyta þessu þannig að ég væri þessi vitlausa og væri með hlutverk sem snerust um mig. Ekki að þeir væru alltaf þessir vitlausu, aðal, sem allt snerist um. Öll hlutverkin þar sem ég var aðal voru hlutverk sem ég skrifaði sjálf. You have to do it yourselves girls!
Var mikið um konur í grínbransanum á þessum tíma? Ekki akkúrat á þessum tíma. Ég var eiginlega sú eina. Þar á undan hafði náttúrulega Edda Björgvins verið. Hún skrifaði sína karaktera sjálf. Lolla og Dóra höfðu líka verið í þessum bransa en við höfðum líka verið saman.
Finnst þér vera fleiri tækifæri fyrir konur að fá grínhlutverk núna? Mér finnst þetta ennþá vera þannig að þær þurfi að gera þetta sjálfar. Horfiði bara á bíómyndirnar, allt miðaldra karlar og yngri kona. Sorry það er bara svona. Það þarf að breyta þessu. Þetta eru oft fullt af karlmönnum og ein kona sem er gjarnan sex object. Þetta er vanalega svoleiðis. Það er mikið verið að tala um þetta núna. Konur eru orðnar alveg ofboðslega þreyttar á þessu. Karlkyns handritshöfundar eru kannski ekki jafn meðvitaðir um það að skrifa kvenhlutverk og átta sig ef til vill ekki á þessu.Geena Davis leikkona sem flutti erindi á ráðstefnu um jafnrétti kynjanna í ár [2015], sagði: ,,Hey, við getum alveg breytt þessu það er ekkert mál. Yfirleitt eru þetta þrjátíu prósent konur og sjötíu prósent karlar, prófum bara að skipta! Látum þessi sjötíu prósent vera konur og breytum kynhlutverkunum”. Þannig að konur fari til dæmis með hlutverk presta, slökkviliðsstjóra og þess háttar.
Hvernig gekk samstarfið með strákunum í Fóstbræðrum? Ömurlega. Nei djók. Það var náttúrulega bara alls konar. Þetta var svo langur tími. Stundum rifumst við eins og hundar og kettir og vorum ekki sammála. Ég var með allt öðruvísi smekk en þeir. Oft, ekki alltaf. Stundum vorum við alveg í sama fíflaganginum. En þeim fannst sketsarnir sem ég skrifaði oft skrýtnir. Þeir bara skildu þá ekki. Þeir sögðu bara að þetta væri eitthvað sorglegt. Þá svaraði ég: ,,Nei sjáðu, þetta er kaldhæðni, ekki taka þessu svona bókstaflega”.
Þannig að það hefði hjálpað að hafa fleiri konur með þér? Já, þá hefðu þær bakkað mig upp. Þetta var stundum svona og þá upplifði ég mig svolítið einmana. Ég öskraði og grenjaði og hljóp inn á klósett og var stundum með vesen. Við vorum svolítið eins og systkini. Við elskuðum hvort annað og allt það en á sama tíma þoldum við hvort annað ekki. Það var eiginlega algjört systkinasamband.
Þú hefur verið mikið í uppistandi, byrjaði það í kjölfar Fóstbræðra? Ég byrjaði 1998 í uppistandi. Þá var kona sem réði mig út á land í Logaland í Borgarfirði. Hún hafði oft séð mig í gríni, ekki bara Fóstbræðrum heldur öllu hinu líka. Hún þurfti að tala mig svo mikið til. Ég sagði henni nefnilega að ég væri leikkona, ekki uppistandari. Þá gerðist það að ég æfði upp karakter, svona dökkhærða Vælu Veinólínu. Ég fór til búningahönnuðar sem gerði fyrir mig ljótasta kjól sem hægt var að gera. Hann var beinn með púff ermum og fullt af slaufum að framan, alveg forljótur. Svo setti ég á mig svarta hárkollu og pappabrjóst. Síðan æfði ég Carmen og söng það af fullum krafti. Ingveldur Ýr, systir mín, hjálpaði mér, hún er óperusöngkona. Þannig að ég var svona karakter. Ég man að þegar ég var að fara inn á svið, þá svitnaði ég undan kollunni og pappabrjóstin stungust inn í holdið og ég hugsaði með mér, guð minn góður hvað er ég búin að koma mér út í.
Svo varstu líka með hamingjunámskeið. Jájájájá, ég er búin að ferðast mikið í gegnum tíðina og hef farið á mörg námskeið sjálf. Ég er námskeiðssjúk. Ég er svo forvitin að ég ferðaðist og fór á hippanámskeið út um allt. Þetta er minn kokteill út úr því öllu. Svo var ég með námskeiðið Listin að vera dama. Það voru einhverjar stelpur úr MH sem báðu mig um að vera með dömunámskeið. Ég spurði þær hvort þær væru eitthvað klikkaðar því að ég hafði verið meira í brussudeildinni. En ég gerði bara eins og New York leikari sem er spurður hvort hann geti steppdansað, sagði bara já og fór að æfa mig. Ég hef oft sagt já við einhverju og svo bara farið og unnið og búið það til sem ég var beðin um að gera. Ég er búin að vera svo ótrúlega heppin. Þetta er svo lítið land. Ég er í raun ennþá að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Kannski verð ég bara hamingjugúru, eitthvað svona búbbí búbbí. Eitt ráð er að segja bara já og vinna svo og undirbúa sig. Segja já og undirbúa sig. Það er sniðugt.
Hvað er á döfinni núna? Já ég er náttúrlega ,,doing my thing”, er að skemmta á árshátíðum, kem fram á Reykjavík Comedy Festival, er að halda fullt af námskeiðum og svo er ég að fljúga. Ferðabransinn hefur alltaf verið svona leynibransi hjá mér. Ferðabakterían er alveg jafn slæm, ef ekki verri en leikhúsbakterían. Hún er mjög sterk. Ég var að vinna lengi sem þjónn, og á ferðaskrifstofu í sjö sumur, fór sem leiðsögumaður í kvennaferðir út um allan heim, og fór svo í flugfreyjuskóla. Ég hef líka farið sem leiðsögumaður á svona cruiseship í Bahamas. Málið er að maður á alltaf að vera læra eitthvað nýtt, það er svo gott fyrir heilann. Alltaf að vera læra nýtt og nýtt og nýtt. Ég hef tekið það mjög alvarlega. Kannski fer ég næst í álver, nei ég fer aldrei í álver. Kannski verð ég garðyrkjukona næst, nei ég er ekki með græna fingur. Kannski garðyrkjukona hugans… og hjartans, okei?!
—
Við þökkum ritstjórn Skólablaðsins Skinfaxa og Helgu Brögu kærlega fyrir!