#vinnufriður

In Fréttir by Auður Albertsdóttir

Stjórn Ungra athafnakvenna blés til samstöðufundar undir yfirskriftinni #vinnufriður. Var tilgangur fundarins að vekja athygli á rétti fólks að sinna starfi sínu í friði og hvetja stjórnvöld og leiðtoga í atvinnulífinu til að skilgreina  hvaða afleiðingar og eftirfylgni áreitni á vinnustað hafi fyrir gerendur og þolendur. Fundurinn fór hann fram á Kex hostel þann 17. janúar síðastliðinn og var opinn öllum.

Daginn fyrir fundinn ákváðu stjórnarkonur að byrja að birta reynslu sína af áreitni á vinnustað undir myllumerkinu #vinnufriður. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og voru þátttakendurnir fjölmargir og af öllum kynjum. Framtakið vakti mikla athygli og var fjallað um það í helstu fjölmiðlum.

Á samstöðufundinum fengum við frábæra gesti, þær Klöru Óðinsdóttur, lögfræðing, Elísabetu Brynjarsdóttur, þáverandi forseta SHÍ og Hönnu Katrínu Friðriksson, þingflokksformann Viðreisnar.

Dagskrá kvöldsins hófst á stuttu erindi frá Snæfríði Jónsdóttur, viðskiptastjóra UAK sem útskýrði hugmyndina bakvið #vinnufrið og samstöðufundinn. Snæfríður spurði salinn hversu margir þeirra hefðu orðið fyrir eða þekktu einhvern sem hefðu orðið fyrir kynferðislegu áreitni eða ofbeldi á vinnustað. Nánast allir í salnum réttu upp hönd. Snæfríður ítrekaði jafnframt kröfu UAK um að það væri ekki bara nóg að viðurkenna vandann og segjast fordæma áreitni. „Við viljum að stjórnvöld og leiðtogar í atvinnulífinu skilgreini hvaða afleiðingar og eftirfylgni áreitni á vinnustað hafi fyrir gerendur og þolendur.”

Erindi Klöru fjallaði um kynferðislega áreiti á vinnustað, forvarnir, umgjörð og eftirfylgni. Talaði Klara um að kynferðisleg áreitni yrði aldrei upprætt með aðeins lögum þar sem að fyrst og fremst fræðsla og hugarfarsbreyting þurfi að eiga sér stað.

Klara velti því upp hvert ætti að beina fræðslunni. Benti hún á að áreitni væri allstaðar en að ákveðnir hópar væru viðkvæmari. Nefndi hún sem dæmi að konur af erlendum uppruna hefðu t.d. ekki sömu tæki og tól og aðrir hópar til að vita rétt sinn. Einnig hafa þær allt í húfi, laun, atvinnuöryggi, húsnæði og fleira.

Klara sagði að allir þurfi að vita hvert eigi að leita ef áreitni kemur upp og minnti á að ef að um hegningalagabrot sé að ræða eigi að tilkynna það til lögreglu og að vinnustaðurinn eigi ekki að hafa áhrif á hvað gerist næst. „Þetta er raunveruleikinn og vinnustaðir þurfa að vera undirbúnir. Það þarf ekki nema eitt atvik til að allt fari úr böndunum,“ sagði Klara og bætti við að það væri öllum að kostnaðarlausu að skjóta málum til kærunefndar jafnréttismála.

„Við viljum ekki að þetta sé eins og í kirkjunni, allt bara leyst innan vinnustaðarins alveg sama hversu alvarleg brotin eru.“

Klara sagði vanta úrræði þegar allt væri búið að gerast, hvað kemur svo? Að hennar mati ætti að vera til staðar faglega menntaður ráðgjafi á vinnustöðum sem veitir aðstoð fyrir þolendur og gerendur. Bætti hún við að alltof margir þolendur sem verða fyrir áreitni á vinnustað veigra sér frá því að segja frá áreitni því viðkomandi vill ekki vera með vesen. „En munum: Það er alltaf gerandinn sem sundrar, þolandinn á ekki að bera skömmina. Við þurfum hugarfarsbreytingu,“ sagði Klara.

Elísabet var næst og byrjaði á að nefna að það væri ekki langt síðan manni var ekki trúað, væri bara að væla eða „hefði verið að bjóða upp á þetta“.

Sagði hún að karlmenn hefðu kannski fundið fyrir því að það sé vegið að þeirra stöðu og að það “megi ekkert lengur” að þeirra mati. „Þeir þurfa að endurskilgreina sýna hegðun og finnst það ósanngjarnt – en það er samt ósanngjarnara að verða fyrir þessu. Tími kvenna er kominn,” sagði Elísabet.

Rétt eins og Klara nefndi Elísabet í sínu erindi jaðarsetta hópa.  „Við erum hér á samstöðufundi, en hvað með konurnar sem komast ekki hingað í kvöld? Í samfélaginu eru líka jaðarsettir hópur sem oft er ekki trúað. Þær leita í heilbrigðiskerfið og þeim er ekki trúað. Þær fá ekki vettvang til að leita réttar síns.”

Hanna Katrín byrjaði á því að ræða #MeToo og þá byltingu sem því fylgdi.  Blaðið var brotið því rödd þolenda kom fram og sagði frá þessari rótgrónu menningu. Sagði Hanna Katrín að það yrði ekki aftur snúið, en það væri bara spurning hversu lengi við stöldrum við og hversu hratt við förum áfram.

Hún nefndi einnig Klaustursmálið og sagði það eins og hafa verið kýldur svakalega fast í magann. Sagði hún að hafa verið í hringiðunni hafa rifið hrúður af sári sem hún hefði verið með frá því að #metoo byltingin hófst.

Bætti hún jafnframt við að það þyrfti að breyta menningunni innan fyrirtækja og að til þess hefðum við tæki og tól. Hanna Katrín sagði að kvenfyrirlitning væri gróin í kúltúr margra sem tengdist eflaust aldagamalli karlamenningu. „En hver segir að þeir séu mikilvægari en heildin?“ spurði Hanna Katrín.

Þá velti hún því upp hvernig best væri að halda áfram. „Þessi viðhorfsbreyting sem við erum að verða vitni að hefði aldrei átt sér stað án tilstuðlan fjölmiðla, en þeir munu missa fókus. Fólk er orðið þreytt,“ sagði Hanna Katrín.

„Við erum auðvitað öll orðin þreytt, en það er bara tvennt í boði: Annað hvort breytum við þessu hér og nú eða höldum áfram að ræða þetta. Við getum breytt þessu.“

Eftir viðburðinn sendi stjórn UAK frá sér eftirfarandi yfirlýsingu sem var send á og birt í fjölmiðlum og á alla þingmenn á Alþingi:

Í kjölfar samstöðufundar Ungra athafnakvenna um áreitni á vinnustað þann 17. janúar s.l. hefur fjöldi einstaklinga opnað sig á veraldarvefnum til að vekja athygli á því hve slæmt ástandið er. Áreitni á vinnustöðum getur verið partur af vinnustaðamenningu þar sem gerendur þurfa oft ekki að axla ábyrgð á meðan þolendur upplifa meðal annars vanlíðan, hræðslu og vonleysi.

Af frásögnum fjölda Íslendinga er ljóst að #MeToo baráttunni er hvergi nærri lokið og að eftirfylgni er víða ábótavant. Þó að við séum komin langt sem samfélag þá höfum við ekki fundið lausn. Það er nauðsynlegt að yfirmenn axli ábyrgð og sjái til þess að aðilar með viðeigandi þekkingu á málum er varða áreitni haldi utan um verkferla sem snerta mál um áreitni á vinnustað. Það er brýnt að samstarfsfólk komi fram við hvort annað af virðingu og axli ábyrgð á gjörðum sínum.

Það eru mannréttindi að fá að vinna sína vinnu í friði, án áreitis.

Ungar athafnakonur skora á stjórnvöld og leiðtoga í atvinnulífinu að takast á við þá áreitni sem enn á sér stað á íslenskum vinnumarkaði. Það er ekki nóg að viðurkenna vandann, það þarf að bregðast við honum, hafa skýra verkferla og framfylgja þeim.

Er ásættanlegt að slík mál týnist í óvönduðum innanhússferlum og nefndum?

Hvernig er hægt að tryggja aðkomu óháðra aðila við framgöngu slíkra mála?

Hvað þarf að gerast svo hér ríki #vinnufriður?

Virðingarfyllst,

Stjórn Ungra athafnakvenna

Stjórn Ungra athafnakvenna 2018-2019 skipa:

Anna Berglind Jónsdóttir

Auður Albertsdóttir

Ásbjörg Einarsdóttir

Kolfinna Tómasdóttir

Sigyn Jónsdóttir

Snæfríður Jónsdóttir

Í kjölfarið á var stjórn Ungra athafnakvenna beðin um að skila inn umsögn við tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019–2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Í umsögninni kom m.a. Fram að stjórninni þætti það óásættanlegt að markmið tillögunnar sé einungis að 60% vinnustaða á innlendum vinnumarkaði skuli hafa gert skriflega áætlum um öryggi og heilbrigði á vinnustað fyrir lok ársins 2020. „Til þess að útrýma því meini sem áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði er þá er nauðsynlegt að allir þar taki þátt, ekki einungis hluti hans,“ segir í umsögn stjórnarinnar.

Þá var harðlega gagnrýnt það fjármagn sem setja á í verkefnið en það er eins og staðan er í dag um 20 milljónir á árunum 2020-2021. „Í kjölfar #MeToo er ljóst að umfang vandans og afleiðingar hans gefa tilefni til að leggja meira fé í að sporna við ofbeldismenningu. Áreitni á vinnustöðum getur verið partur af vinnustaðamenningu þar sem gerendur þurfa oft ekki að axla ábyrgð á meðan þolendur upplifa meðal annars vanlíðan, hræðslu og vonleysi. Stjórn Ungra athafnakvenna telur að ekki sé hægt að tryggja fullnægjandi fræðslu til vinnustaða miðað við þetta fjármagn og að tilgangur þingsályktunartillögunnar eigi þá á hættu að missa mark sitt.“

Þá lagði stjórnin til að þeir vinnustaðir sem sýnt geti fram á skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, ásamt aðkomu óháðs fagaðila við framgöngu slíkra mála, fái einhverskonar viðurkenningu frá Vinnueftirlitinu þess efnis.

„Það er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld styðji áfram þá samfélagsbreytingu sem er að eiga sér stað með staðföstum og kraftmiklum hætti. Stjórn Ungra athafnakvenna lýsir hér með yfir fullum samstarfsvilja til að ná þeim markmiðum sem að áætlun þessi setur,“ segir í umsögninni.

Kolfinna Tómasdóttir, stjórnarkona Ungra athafnakvenna, fór síðan á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis 19. febrúar síðastliðinn þar sem hún gerði grein fyrir umsögn stjórnarinnar og svaraði spurningum nefndarmanna.

Ljóst er að eftirfylgni kynbundins og kynferðislegs ofbeldis og áreitni og er víða ábótavant á vinnumarkaðinum. Það er nauðsynlegt að allir vinnustaðir fái fullnægjandi fræðslu varðandi ofbeldi og áreitni á vinnustað ásamt því að aðkoma óháðra fagaðila við framgöngu slíkra mála og vernd þeirra sem stíga fram sé tryggð. #vinnufriður leiddi í ljós risastórt vandamál sem hefur mikil áhrif á vinnumarkaðinn og samfélagið í heild. Vandamál af þessari stærðargráðu tekur tíma og vinnu að leysa, enda er um rótgróna hegðun að ræða. Við í stjórn Ungra athafnakvenna erum hvergi nærri hættar að vekja athygli á þessu alvarlega vandamáli og hvetjum ykkur til að segja frá og standa upp gegn óréttlæti því saman getum við fundið lausn. Við hverfum ekki frá erfiðum áskorunum, við höfum áhrif.